Vitni Margrétar vildi ekki mæta í dómsal

Margrét Friðriksdóttir.
Margrét Friðriksdóttir. Ljósmynd/Aðsend

Vitni í máli ákæruvaldsins gegn Margréti Friðriksdóttur, sem sakfelld var fyrir að hóta Semu Erlu Serdar lífláti, voru ekki öll samstiga í framburði sínum um hvað átti sér stað fyrir utan Cafe Benzin við Grensásveg.

Taldi héraðsdómur að framburður eina vitnisins sem tók undir með Margréti um að hún hefði ekki átt í hótunum við Semu hefði rýran trúverðugleika. Önnur vitni hefðu hins vegar vísað til þess að hótanir hefðu átt sér stað. Þetta kemur fram í dómi málsins sem birtur var í dag á vef héraðsdóms.

Margrét var ákærð og dæmd fyrir að hafa sagt við Semu ,,Ég drep þig fokking ógeðslega tíkin þín“ eða „I'm gonna kill you, you fucking bitch“.

Lét ýmis ummæli falla

Eins og fjallað var um í gær hlaut Margrét 30 daga skilorðsbundinn dóm fyrir hótanirnar. Í dóminum er rakið að hún hafi verið á veitingastaðnum ásamt vini sínum en fyrir utan veitingastaðinn hafi hún svo hitt Semu.

Margrét lét þar ýmis ummæli falla um Semu, en sjálf sendi hún Semu skilaboð daginn eftir og baðst afsökunar á þeim, jafnvel þótt hún hafi samhliða því sakað Semu um fasisma og reynt að ráða því hvar Margrét gæti verið og hvar ekki. Kemur fram í dóminum að Sema sé einn eigenda staðarins.

Sema Erla Serdar.
Sema Erla Serdar. Ljósmynd/Aðsend

Mættust í útvarpsþætti

Sagði Margrét fyrir dómi að henni hafi verið gert að fara af staðnum af starfsmanni vegna fyrri samskipta sinna við Semu, en þær mættust meðal annars í útvarpsþætti árið 2016 að ræða útlendingamál. Er Sema stofnandi Solari, hjálparsamtaka fyrir hælisleitendur og flóttafólk á Íslandi. Þá sagði Margrét að hún hefði fyrir utan staðinn hitt Semu þar sem hún væri ásamt fjölda vinkvenna sinna og að vegið hefði verið að sér.

Vinur Margrétar gat takmarkað tjáð sig um það sem gerðist á þessum tímapunkti þar sem þau höfðu stuttu áður kynnst erlendis og hún boðið honum til landsins. Því kynni hann takmarkaða íslensku. Hann sagði hins vegar bæði Semu og Margréti hafa öskrað á hvor aðra.

Þá bar vitni vinur Margrétar, sem þó sagðist ekki mæta í héraðsdóm þrátt fyrir að vera staddur í Reykjavík. Sagði hann að engar hótanir hefðu átt sér stað, en rifrildi á milli þeirra. Sem fyrr segir taldi dómurinn vináttu við Margréti og það að vitnið vildi ekki mæta fyrir dóminn rýra trúverðugleika þess. Þá hafi Margrét ekki látið vita af vitninu fyrr en við rekstur málsins, en ekki við rannsókn málsins.

Froðufellandi af bræði

Þrjú vitni sem tengd voru Semu báru vitni um hótanir Margrétar og fjórða vitnið, sem hafði tengsl við hvoruga sagði Margréti hafa verið „froðufellandi“ af bræði og marghótað að drepa Semu. Hún hefði notað orðalag eins og að „stúta“ og „kála“ henni, bæði á íslensku og ensku. Hins vegar hefði Sema verið róleg og beðið Margréti að róa sig.

Í niðurstöðu dómsins segir að auk framburða vitna sem lýsi hótunum þá hafi Margrét sjálf gengist við að hafa viðhaft ósæmilegt orðbragð. „Lýsingar hennar á því eru þó ekki í samræmi við framburð hennar hjá lögreglu og engin vitni styðja þær,“ segir í dóminum. Er því talið sannað að hún hafi hótað Semu.

Þá er vísað til útprentana af samskiptamiðlum, en dómurinn segir ekkert þar réttlæta háttsemi Margrétar. „Þvert á móti verður af þeim ráðið að ákærða hafi um langt skeið látið ýmis óviðurkvæmileg orð falla um brotaþola [Semu]. Þá bendir framburður vitna fyrir dóminum ekki til þess að ákærða [Margrét]  hafi haft ástæðu til að telja sér ógnað,“ segir þar, en Margrét hélt því fram að Sema hefði ógnað sér við veitingastaðinn.

 Tekið er fram að ekki þyki unnt að líta svo á að Margrét hafi sýnt af sér iðrun þar sem „orðfæri hennar fyrir dómi og afsökunarbeiðni sú sem hún sendi brotaþola bera þess ekki merki.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert