Andlát: Sigurjón Jóhannsson

Sigurjón Jóhannsson.
Sigurjón Jóhannsson.

Sigurjón Jóhannsson, myndlistarmaður, hönnuður og leikmyndahöfundur, lést 8. febrúar síðastliðinn, 83 ára að aldri.

Sigurjón fæddist á Siglufirði þann 21. maí árið 1939. Foreldrar hans voru Guðbjörg Þorvaldsdóttir húsmóðir og Jóhann Sigurjónsson verkstjóri. Að loknu stúdentsprófi frá MR lagði hann stund á myndlist, fyrst hérlendis við Handíða- og myndlistaskólann og Myndlistaskólann við Freyjugötu en síðar lærði hann myndlist og arkitektúr á Ítalíu og leikmynda- og búningahönnun í Kaupmannahöfn.

Sigurjón var fjölhæfur listamaður sem setti mark sitt á íslenskt samfélag. Hann var einn fjögurra stofnenda SÚM-hópsins sem olli þáttaskilum í íslenskri myndlist um miðjan sjöunda áratug liðinnar aldar og er í dag talið eitt af lykiltímabilum íslenskrar myndlistarsögu.

Framan af starfsævinni helgaði Sigurjón sig leikhúsinu og er hann sennilega sá listamaður sem hefur sett hvað mestan svip á þær leiksýningar sem voru sýndar á helstu leiksviðum borgarinnar á ofanverðri 20. öld. Hann var yfirleikmyndahönnuður Þjóðleikhússins 1976 til 1988 og sat í þjóðleikhúsráði 1984-1988 fyrir hönd Félags íslenskra leikara. Sigurjón á að baki um eitt hundrað leikmyndir auk þess sem hann hefur unnið við kvikmyndirnar: Á hjara veraldar, Atómstöðina, Nonna og Manna, Tár úr steini, Sporlaust og Kaldaljós.

Utan leikhússins starfaði Sigurjón að frjálsri listsköpun, safna- og sýningahönnun. Hann á að baki fjölmargar einka– og samsýningar og eru verk hans í eigu flestra helstu safna landsins. Yrkisefni hans voru mörg en í vatnslitamyndum voru æskustöðvarnar og síldarævintýrið á Siglufirði honum sérlega hjartfólgin. Hann kom að mörgum sýningum er tengdust gjarnan alþýðumenningu og sögu landsins, m.a. í Sögusafninu, Síldarminjasafninu á Siglufirði, Sjóminjasafni Reykjavíkur og Þjóðmenningarhúsinu.

Sigurjón hlaut tvívegis Grímuna, leiklistarverðlaun Leiklistarsambands Íslands. Árið 2003 var hann verðlaunaður fyrir leikmynd ársins og árið 2012 hlaut hann heiðursverðlaun Grímunnar fyrir unnin störf.

Sigurjón lætur eftir sig eiginkonu og fjögur uppkomin börn.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka