Braut rúðu og hrækti í andlit lögreglumanns

Lögreglan að störfum.
Lögreglan að störfum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Tilkynnt var um einstakling sem braut rúðu á hóteli í miðbæ Reykjavíkur og var með ógnandi tilburði. Þegar lögreglan kom á vettvang gaf hún sig á tal við gerandann, sem reyndist ölvaður og óviðræðuhæfur.

Hann var handtekinn, grunaður um eignaspjöll. Þegar flytja átti hann á lögreglustöðina við Hverfisgötu hrækti hann í andlit lögreglumanns sem sat við hlið hans í lögreglubifreiðinni. Hann var vistaður í fangaklefa, að því er kemur fram í dagbók lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.

Gekk berserksgang í Kópavogi

Tilkynnt var um einstakling sem gekk berserksgang og olli minniháttar skemmdarverkum í hverfi 200 í Kópavogi. Hann var augljóslega undir áhrifum áfengis og var hann handtekinn og vistaður í fangaklefa.

Lögreglan hafði í nógu að snúast í gærkvöldi og í …
Lögreglan hafði í nógu að snúast í gærkvöldi og í nótt. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Lögreglunni barst tilkynning um ógnandi mann sem neitaði að yfirgefa húsnæði í hverfi 105 í Reykjavík. Hann var áberandi ölvaður þegar lögreglan kom á vettvang og brást illa við afskiptum og lamdi í lögreglubifreiðina. Hann var handtekinn og fluttur á lögreglustöð þar sem vakthafandi varðstjóri ræddi við hann. Að viðræðum loknum var honum ekið til síns heima.

Þrír sinntu dyravörslu án réttinda

Lögregla sinnti veitingahúsaeftirliti á sjö veitingahúsum í miðborginni og kannaði réttindi dyravarða. Þrír einstaklingar í miðbænum sinntu dyravörslu án þess að vera með tilskilin réttindi. Inni á einum veitingastað voru of margir gestir þegar lögreglan kom á vettvang. Ábyrgðaraðila var kynnt að skýrsla yrði rituð vegna brots á lögum um veitingastaði og hann látinn vita að ef lögreglan kæmi aftur á vettvang og ekki yrði gætt að gestafjölda yrði veitingastaðnum lokað.

mbl.is/Ari

Minniháttar líkamsárás var gerð á skemmtistað í miðbæ Reykjavíkur. Gerandinn var farinn af vettvangi en sá sem varð fyrir árásinni kvaðst vita hver gerandinn var.

Geltandi hundur

Tilkynnt var um aðra líkamsárás í hverfi 105 í Reykjavík. Lögreglan kom á vettvang, handtók tvo og voru þeir vistaðir í fangaklefa.

Tilkynnt var um geltandi hund í fjölbýlishúsi á Seltjarnarnesi. Lögreglan fór á vettvang en náði ekki sambandi við húsráðanda.

Lögreglan að störfum.
Lögreglan að störfum. mbl.is/Hari
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert