Dómsmálaráðherra veðurtepptur á Blönduósi

Jón Gunnarsson dómsmálaráðherra.
Jón Gunnarsson dómsmálaráðherra. mbl.is/Kristinn Magnusson

Jón Gunnarsson dómsmálaráðherra ávarpaði gesti 112 dagsins í Hörpu í morgun í gegnum fjarfundarbúnað eftir að hafa verið veðurtepptur á Blönduósi.

„Vegna veðurs komst ég ekki í bæinn en sem fyrr kom björgunarsveitin til bjargar, í þetta sinn var það Björgunarfélagið Blanda á Blönduósi,“ skrifaði Jón á Facebook.

„Sveitin skaut yfir mig skjólshúsi og gerði mér kleift að ávarpa gesti 112 dagsins í Hörpu í gegnum fjarfundarbúnað,“ bætti hann við.

Ofbeldisgátt 112 fjármögnuð áfram

Fram kemur í tilkynningu að dómsmálaráðherra hafi gert samning við neyðarlínuna um að reka áfram og þróa frekar ofbeldisgátt 112 þannig að 112.is verði sá staður þar sem finna má upplýsingar og úrræði varðandi ofbeldi.

„112 er númerið sem fólk leitar til í neyð. Þar skiptir ekki máli hvers kyns neyðin er – númerið er 112 og vefsvæðið er 112.is. Árangurinn af Ofbeldisgáttinni er góður og það er vert að halda því áfram sem vel er gert. Það er mér því ánægjuefni að skrifa undir samning um áframhald þessa verkefnis,“ sagði Jón í tilkynningunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert