Eftir átta ára feril sem atvinnukylfingur er margt sem kemur í huga Ólafíu þegar hún er beðin um að nefna hvað standi upp úr.
„Það var frábært að fá að ferðast um heiminn og kynnast öllu þessu fólki og upplifa alls konar ævintýri. Ég hef farið um allan heiminn, þó ég hafi ekki farið til Suður-Ameríku og Suðurskautslandsins,“ segir hún kímin.
Í atvinnumennsku er samkeppnin að vonum svakaleg og því fylgir streita. Ólafía segist hafa tekist á við stressið á ýmsan máta.
„Ég las margar bækur um sálfræði og var hjá íþróttasálfræðingi. Ég prufaði dáleiðslu og hugleiðslu og alls konar! Ég var opin fyrir öllu sem gat hjálpað mér. Eftir að ég komst inn á LPGA hugleiddi ég tvisvar á dag. Þar sem ég var „litli Íslendingurinn“ var ég eftirsótt í viðtöl hjá Ameríkönunum og ég sagði alltaf já því mér fannst það spennandi. Ég fékk því mikla athygli og líka frá Íslandi,“ segir hún og segist hafa þurft að læra að höndla athyglina.
Hvernig var tilfinningin þegar þú komst inn á LPGA-mótaröðina?
„Ég var nýbúin að klára fimm daga mót og var ofsalega þreytt, búin að einbeita mér allan tímann. Ég upplifði bara spennufall og mikla þreytu. Á sama tíma var það svo gaman að ég gat ekki sofið um nóttina. Ég hugsaði: „Vá, þetta tókst!“,“ segir Ólafía og segir mikið fjölmiðlafár hafa fylgt í kjölfarið.
Ítarlegt viðtal er við Ólafíu í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins um helgina.