Kristján Þórður Snæbjarnarson, forseti ASÍ, segist að sjálfsögðu ætla að þiggja boð um að mæta í verkfallsvörslu með Eflingu.
Í facebookfærslu greinir hann frá því að þrjár ályktanir hafi verið samþykktar á fundi miðstjórnar ASÍ á miðvikudag. Sú fyrsta snýst um að lýst er yfir fullum stuðningi við verkföll Eflingar og beinir miðstjórnin til félagsfólks að ganga ekki í störf félagsfólks stéttarfélagsins.
Í annarri ályktun „harmar Miðstjórn þá neikvæðu orðræðu sem finna má víða, m.a. á samfélagsmiðlum og leitt hefur til þess að hótanir hafa borist starfsfólki og forystufólki í hreyfingunni. Miðstjórn fordæmir slíka framgöngu. Þeirri ályktun er ekki beint að samninganefnd Eflingar“, segir Kristján Þórður í færslunni.
Hann kveðst að lokum styðja baráttu Eflingar fyrir bættum kjörum.
„Ég hef boðið fram aðstoð mína og mun að sjálfsögðu þiggja gott boð um að mæta í verkfallsvörslu með félögum mínum í Eflingu.“