„Það fyrsta sem ég hugsaði þegar ég sá hann var að ég hélt að hann væri að fara að deyja. Að ég væri að fara að missa bróður minn,“ hinn 15 ára Arnór Ingi Davíðsson, skyndihjálparmanneskja ársins, sem Rauði krossinn útnefnir á ári hverju.
Var hann valinn fyrir að hafa sýnt einstaka hetjudáð og snarræði þegar hann bjargaði 11 ára bróður sínum, Bjarka Þór Davíðssyni, undan snjóflóði í Hamrinum í Hveragerði í febrúar á síðasta ári. Tók Arnór nafnbótinni við hátíðlega athöfn í Hörpunni í dag, á degi neyðarnúmersins 112, og ræddi við mbl.is.
Það hafði snjóað aðfaranótt 19. febrúar í Hamrinum í Hveragerði í fyrra, einu vinsælasta leiksvæði bæjarins og bræðurnir komnir upp í fjallið.
„Við erum þarna uppi, ég ætla að renna mér niður og finn snjóskriðu koma á eftir mér,“ segir Arnór í samtali við mbl.is. Bjarki Þór, bróðir Arnórs, var nokkru neðar í brekkunni.
„Ég sé hann horfa upp til mín og síðan stekkur hann til hliðar, fyrir framan runna og lendir í honum. Hann flækist í trjám og snjórinn fellur ofan á hann,“ útskýrir Arnór. Metri af snjó lá á bróður hans og sást rétt í andlitið. Þá hafði Arnór fest sig við stein og tók hann um tvær mínútur að losa sig.
„Ég síðan heyri hann öskra, aðeins lengra í burtu. Ég hélt fyrst að hann væri að djóka. En síðan heyrði ég að hann var að öskra á hjálp. Ég fer og elti öskrið eins vel og ég get og reyni að finna hann. Þá sé ég litla trérunna og heyri í honum þar. Þar fer ég inn og sé rétt í andlitið á honum, það var metra þykkt lag af snjó á honum. Ég gref frá andlitinu hans svo hann geti andað og hringi svo beint á 112,“ segir Arnór en þá hófst áskorun sem væri mörgum torveld: Að halda ró sinni.
„112 segir mér að slaka á og ég gerði það. Ég reyndi að róa mig niður svo hann yrði líka rólegur. Ef við værum báðir verið stressaðir þá gæti þetta endað illa. Við reyndum báðir að róa okkur niður og síðan kom björgunarsveitin, lögreglan og sjúkrabíll.“ Var Arnór færður afsíðis á meðan Bjarki Þór var grafinn upp og fluttur á spítala en hann slapp við alvarleg meiðsl.
Spurður hvernig honum hefði liðið, þegar hann kom auga á bróður sinn, svarar hann:
„Það fyrsta sem ég hugsaði þegar ég sá hann það var að ég hélt að hann væri að fara að deyja. Að ég væri að fara að missa bróður minn. Og ég sá hann og hljóp beint að honum og gróf frá andlitinu á honum. Þetta var vesta tilfinning sem ég hef upplifað. Ég reyndi að moka út um allt. En snjórinn var svo þjappaður og harður að það var ekki séns fyrir mig að ná að moka neitt. Þá hringdi ég beint í 112 og þeir hjálpuðu mér fullt.“
Arnór segist aldrei vilja upplifa neitt þessu líkt aftur.
„Við lærðum báðir fullt af þessu og við vitum hvað við eigum að gera í svona aðstæðum.“ Hann segir aðspurður mikilvægt að krakkar fái fræðslu um viðbrögð við snjóflóðum þar sem staðurinn sé vinsæll á meðal barna.
Bjarki Þór segir að sér hafi verið létt þegar bróðir hans kom honum til bjargar, þótt hann hafi setið fastur undir þykku lagi af snjó.
„Ég var undir snjónum og þetta var óþægilegt. En þegar ég sá hann var ég minna stressaður og þegar björgunarsveitin kom var ég miklu betri. Þá vissi ég að ég væri að fara að koma heim.“ Var hann í kjölfarið fluttur á slysadeild, kaldur en laus við alvarleg meiðsli.
„Ég er nýbúinn að fara með skólanum í Hamarinn og ég sýndi þeim hvar þetta gerðist.“ Spurður hvort hann leiki sér enn í Hamrinum svarar hann játandi. „Það er núna allt í lagi að fara í Hamarinn og kíkja á þetta,“ segir Bjarki Þór léttur í lokin.
Í myndbandi Rauða krossins er rætt stuttlega við Arnór og Bjarka Þór og spiluð hljóðupptaka frá símtali hans við Neyðarlínuna. Viðbragðsaðilar eru sammála um að hann sé vel að verðlaununum kominn.