Óveðrið sem gengið hefur yfir landið hefur haft umtalsverð áhrif á flugáætlun Icelandair.
Öllu innanlandsflugi og flugi til Grænlands var aflýst og einnig flugi til Bandaríkjanna síðdegis í dag. Hefur það þau áhrif að flugi frá Bandaríkjunum til Keflavíkur sem átti að lenda í fyrramálið, sunnudag er einnig aflýst.
Þá var síðdegisflugi til London og Kaupmannahafnar aflýst.
Flugferðum frá Evrópu sem áttu að lenda seinni partinn í dag var frestað til kvölds eins og unnt var, en aflýsa þurfti nokkrum flugferðum vegna reglugerðarbundinnar hvíldar áhafna.
Lista yfir flug frá Evrópu sem hefur verið aflýst og frestað er að finna neðst í fréttinni.
Að sögn Guðna Sigurðssonar, upplýsingafulltrúa Icelandair verða allir farþegar endurbókaðir sjálfkrafa og ný ferðaáætlun send með tölvupósti. Farþegum er bent á að fylgjast með tölvupósti og smáskilaboðum frá flugfélaginu varðandi breytta flugáætlun og vekur Guðni athygli á því að ekki sé nauðsynlegt að hafa samband við Icelandair nema ný ferðaáætlun henti ekki.
Áhersla er lögð á að halda keðjuverkandi áhrifum af röskununum í lágmarki og því er gert ráð fyrir að flug verði að mestu leyti á áætlun í fyrramálið.
Flugi frestað en áætluð lending milli klukkan 20-21 í kvöld:
FI575: Salzburg – Keflavík
FI521: Frankfurt – Keflavík
FI319: Osló – Keflavík
FI417: Dublin – Keflavík
FI501: Amsterdam – Keflavík
FI529: Berlín – Keflavík
FI471: London Gatwick – Keflavík
FI454: London Heathrow – Keflavík
FI431: Glasgow – Keflavík
Flugi aflýst:
FI343: Helsinki – Keflavík
FI543: París – Keflavík
FI533: Munchen – Keflavík
FI205: Kaupmannahöfn – Keflavík
FI441: Manchester – Keflavík
FI455: London Heathrow – Keflavík (aflýst vegna þess að ekki var flogið frá Íslandi síðdegis)
FI213: Kaupmannahöfn – Keflavík (aflýst vegna þess að ekki var flogið frá Íslandi síðdegis)