Myndskeið: Töldu hljóð hafa borist frá rústunum

Svissneska björgunarsveitin í Antakya í Tyrklandi óskaði í gærkvöldi eftir aðstoð verkfræðings og öryggissérfræðings úr íslenska hópnum sem staddur er á svæðinu, þar sem talið var að heyrst hefði í einstaklingi í rústum í borginni. Talið var að lítil fjölskylda gæti verið inni í húsi sem hafði hrunið.

Frá aðgerðum í Antakya í Tyrklandi.
Frá aðgerðum í Antakya í Tyrklandi. Ljósmynd/Landsbjörg

Erlendur Birgisson verkfræðingur mat ástand rústarinnar og lagði til að vinnuvél yrði notuð til að halda opnum nokkurs konar göngum inn í rústina, en fyrir ofan þau var mikið af lausu og óstöðugu braki. Ráðstafanir voru gerðar til að styrkja göngin áður en farið var inn í rústirnar.

Hundar voru sendir inn til að athuga hvort einhver fyndist þar á lífi, en þeir virtust ekkert finna. Í kjölfarið fóru tveir björgunarmenn inn með hlustunartæki en greindu ekki nein hljóð. Aðgerðin varð því ekki að björgun.

Viðtal við Erlend má sjá hér að ofan.

Spítalinn kominn út á bílaplan

Þá fóru þau Ragna Sif Árnadóttir læknir, Björn J. Gunnarsson sjúkraflutningamaður og Andri Rafn Helgason frá Landhelgisgæslunni að sjúkrahúsinu í Antakya til að kanna aðstæður í aðdraganda komu gríðarstórs færanlegs sjúkrahúss frá Bandaríkjamönnum, sem setja á upp þar fyrir utan.

Viðtal við Björn má sjá hér að neðan.

Þörfin mjög brýn

Að sögn Björns er spítalinn á svæðinu að miklu leyti óstarfhæfur og nánast allur kominn út á bílaplan. Þörfin á aðstoðinni frá Bandaríkjamönnum er því mjög brýn, enda ástandið mjög slæmt.

Fyrir utan sjúkrahúsið í Antakya þar sem allri þjónustu er …
Fyrir utan sjúkrahúsið í Antakya þar sem allri þjónustu er sinnt undir berum himni. Ljósmynd/Landsbjörg
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert