Drög að frumvarpi dómsmálaráðherra um sameiningu átta héraðsdómstóla landsins í einn dómstól undir nafninu Héraðsdómur eru komin í samráðsgátt stjórnvalda.
Lagt er til að yfirstjórn dómstólsins verði staðsett í Reykjavík og að dómstóllinn hafi átta lögbundnar starfsstöðvar á þeim stöðum sem héraðsdómstólar eru nú starfræktir.
Áform um lagasetninguna voru birt í samráðsgáttinni í ágúst í fyrra.
Lagt er til að sameining héraðsdómstólanna taki gildi 1. ágúst á næsta ári en dómstjóri verði skipaður til fimm ára frá 1. mars 2024 til þess meðal annars að undirbúa sameininguna og stofnun dómstólsins.
Í frumvarpsdrögunum er tillaga um lögbundinn lágmarksfjölda starfsmanna á hverri starfsstöð. Kveðið verði á um það í lögum um dómstóla að þrír starfsmenn verði að lágmarki starfandi á hverri starfsstöð, þar af verði að minnsta kosti tveir héraðsdómarar eða einn héraðsdómari og einn dómarafulltrúi.
Lagt er til að rýmkað verði hvar taka megi dómsmál fyrir svo að héraðsdómari sem úthlutað hefur verið máli sem reka á í umdæmi annarrar starfsstöðvar en hann á fast sæti í, geti tekið það fyrir á sinni starfsstöð eða annarri. Heimild héraðsdómara til að taka mál fyrir utan umdæmis verði því ekki lengur takmörkuð við fyrirtökur eftir þingfestingu máls, þó þannig að mál skuli að jafnaði taka fyrir þar sem heppilegt þykir vegna rekstrar þess.
Verði frumvarpið að lögum er ráðgert að dómsmálaráðherra leggi fram annað frumvarp þar sem mælt verði fyrir um breytingar á réttarfarslöggjöf sem nauðsynlegar verða ef héraðsdómstólar landsins sameinast í einn dómstól.