Páll Pampichler Pálsson hljómsveitarstjóri og tónskáld er látinn. Hann lést í heimaborg sinni Graz á föstudag, þann 10. febrúar á 95. aldursári.
17 ára gamall var Páll ráðinn uppfærslumaður í trompetdeild óperuhljómsveitarinnar í Graz í Austurríki. Þar starfaði hann til ársins 1949 er hann var ráðinn til Íslands sem stjórnandi Lúðrasveitar Reykjavíkur og 1. trompetleikari í Útvarpshljómsveitinni.
Þegar Sinfóníuhljómsveit Íslands var stofnuð árið eftir, var Páll ráðinn í sömu stöðu. Páll starfaði sem trompetleikari í Sinfoníuhljómsveit Íslands til ársins 1960 en stjórnandi Lúðrasveitar Reykjavíkur var hann til ársins 1973, eða samfleytt í 24 ár.
Árið 1957 stjórnaði Páll Sinfóníuhljómsveit Íslands í fyrsta sinn opinberlega í Reykjavík. Upp frá því stjórnaði hann hljómsveitinni reglulega í 35 ár.
Á ferli sínum hefur Páll stjórnað hljómsveitum á Norðurlöndunum og á meginlandi Evrópu svo sem Fílharmóníuhljómsveitinni í Stokkhólmi og Rínarfílharmóníunni.
Í tilkynningu frá fjölskyldu Páls er þess minnst að hann kappkostaði við að hafa íslensk verk á efnisskrám tónleika sinna og frumflutti á erlendri grundu verk eftir Atla Heimi Sveinsson, Jón Nordal, Jón Leifs og Þorkel Sigurbjörnsson.
Í Þjóðleikhúsinu og Íslensku Óperunni stjórnaði Páll fjölmörgum sýningum. Þeirra á meðal voru Pétur Gautur, Galdra Loftur og Káta ekkjan í fyrrnefnda húsinu og La traviata, Sígaunabaróninn, Rakarinn frá Sevilla, Aida og Sardasfürstynjan í því síðarnefnda.
Frá 1953 til 1993 stjórnaði Páll Barnalúðrasveitum Melaskóla og kenndi þar á öll málmblásturshljóðfæri.
Frá 1964 til 1990 var Páll stjórnandi Karlakórs Reykjavíkur. Á þessum árum fór kórinn í margar utanlandsferðir sem bar hróður hans og Íslands víða. Má þar nefna Kanada, Bandaríkin, Kína, Sovétríkin, Egyptaland, Ísrael, Grikkland og Austurríki.
Sem ungur maður nam Páll auk hljóðfæraleiks, tónsmíðar í heimaborg sinni Graz. Eftir hann liggja fjölmargar tónsmíðar. Má þar nefna verk fyrir einleikshljóðfæri, kammertónlist, sönglög, hljómsveitarverk, einleikskonserta, kórverk og verk fyrir lúðrasveit.
Páll var loks landsþekktur fyrir útsetningar sínar, einkum fyrir karlakór annars vegar og sinfóníuhljómsveit hins vegar. Verk hans hafa verið flutt bæði hér heima og erlendis og mörg þeirra hafa verið gefin út á hljómplötum og diskum.
Árið 1993 var Páll tilnefndur til tónskáldaverðlauna Norðurlandaráðs fyrir verk sitt „Ljáðu mér vængi“ fyrir einsöngsrödd og hljómsveit. Var hann margsinnis heiðraður fyrir störf sín bæði hér heima og í föðurlandinu Austurríki.