Skoðum ekki bara slys

Marc De Greef er sérfræðingur í öryggi og vinnustaðamenningu.
Marc De Greef er sérfræðingur í öryggi og vinnustaðamenningu. mbl.is/Ásdís

Ekki munaði miklu að Marc De Greef kæmist alls ekki til landsins því fyrsta flugi hans var aflýst og síðara flugi, daginn eftir, seinkaði það mikið að fyrirlestur hans á forvarnarráðstefnu VÍS um vinnustaðamenningu og öryggi fór fram í gegnum tölvu frá flugvellinum í Brussel. En til landsins komst hann að lokum og kom beint í Hörpu þar sem blaðamaður beið eftir honum á meðan úti geisaði blindbylur. Góð landkynning það!

De Greef er í grunninn verkfræðingur sem síðar stofnaði fyrirtækið Prevent sem sérhæfir sig í ráðgjöf til fyrirtækja á sviði öryggis og vinnustaðamenningar. 

Jafnvægi milli krafna og afkasta

Einblínið þið á öryggi á vinnustöðum og forvörnum til að fækka slysum?

„Við skoðum þetta á mun stærri skala og einblínum frekar á almenna vellíðan og skoðum ekki bara slys heldur einnig sjúkdóma, kulnun og streitu. Við erum bæði að stuðla að forvörnum en ekki síður á jafnvægi og við hjálpum fyrirtækjum að auka getu sína með því að finna gott jafnvægi á milli krafna og afkasta. Það verður að vera gott jafnvægi þar, og þá skiptir heilsa ekki síður máli en öryggi. Fyrirtæki þurfa að nýta starfskrafta til fulls en án þess að fólk veikist eða lendi í vinnuslysum,“ segir De Greef og segir bæði þurfi að skoða vinnuaðstæður en einnig hvern og einn einstakling.

„Ef þetta tvennt er skoðað og styrkt skilar það sér í heilbrigðara starfsfólki,“ segir hann og bendir á að þau mæli með að fyrirtæki taki þátt í að hvetja fólk til að lifa heilbrigðara lífi og láta af reykingum til að mynda.

„Eitt helsta vandamálið sem við stöndum frammi fyrir eru krónískir sjúkdómar af völdum reykinga, ofdrykkju, hreyfingarleysi og offitu,“ segir hann og segir að ef fyrirtæki nái þeim markmiðum að fá fólk til að lifa heilbrigðari lífi, skilar það sér margfalt út í þjóðfélagið.

Ítarlegt viðtal er við De Greef í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins um helgina. 

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert