Þung staða á bráðamóttökunni á Selfossi

Heilbrigðisstofnun Suðurlands á Selfossi.
Heilbrigðisstofnun Suðurlands á Selfossi. Rax / Ragnar Axelsson

Þung staða er á bráðamóttökunni á Selfossi í dag, vegna manneklu heilbrigðisstarfsmanna. Þetta staðfestir Jóhann Már Andersen, yfirlæknir bráðamóttökunnar á Selfossi.

„Staðan núna er mjög þung vegna erfiðleika við mönnun og fjölda umgangspesta og veikinda í gangi á svæðinu,“ segir hann. Ýmsar pestir eru í gangi, þar á meðal inflúensa, Covid, RS-veira og streptókokkar svo fátt eitt sé nefnt.

„Auðvitað höldum við áfram að sinna bráðum veikindum og slysum,“ segir hann.

Þung staða að undanförnu

Hjúkrunarfræðingar verði við vinnu og meti veikindi þeirra sem leita á bráðamóttöku en læknisþjónusta verði skert. Jóhann bendir á síma Læknavaktarinnar þar sem bráðamóttakan geti einungis sinnt bráðatilfellum í dag.

„Ef atvikin teljast ekki bráð eða alvarleg bendum við á síma Læknavaktarinnar.“

Þung staða hefur verið á spítalanum á Selfossi síðastliðna viku vegna umgangspesta og var þar sett heimsóknarbann í byrjun mánaðar til þess að takmarka útbreiðslu smita.

Uppfært kl. 14.00: Í fyrri útgáfu fréttarinnar kom fram að neyðarstig væri á bráðamóttökunni. Það er ekki rétt og hefur verið leiðrétt.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert