Þung staða er á bráðamóttökunni á Selfossi í dag, vegna manneklu heilbrigðisstarfsmanna. Þetta staðfestir Jóhann Már Andersen, yfirlæknir bráðamóttökunnar á Selfossi.
„Staðan núna er mjög þung vegna erfiðleika við mönnun og fjölda umgangspesta og veikinda í gangi á svæðinu,“ segir hann. Ýmsar pestir eru í gangi, þar á meðal inflúensa, Covid, RS-veira og streptókokkar svo fátt eitt sé nefnt.
„Auðvitað höldum við áfram að sinna bráðum veikindum og slysum,“ segir hann.
Hjúkrunarfræðingar verði við vinnu og meti veikindi þeirra sem leita á bráðamóttöku en læknisþjónusta verði skert. Jóhann bendir á síma Læknavaktarinnar þar sem bráðamóttakan geti einungis sinnt bráðatilfellum í dag.
„Ef atvikin teljast ekki bráð eða alvarleg bendum við á síma Læknavaktarinnar.“
Þung staða hefur verið á spítalanum á Selfossi síðastliðna viku vegna umgangspesta og var þar sett heimsóknarbann í byrjun mánaðar til þess að takmarka útbreiðslu smita.
Uppfært kl. 14.00: Í fyrri útgáfu fréttarinnar kom fram að neyðarstig væri á bráðamóttökunni. Það er ekki rétt og hefur verið leiðrétt.