Baldur Arnarson,
Andrés Magnússon, framkvæmdastjóri Samtaka verslunar og þjónustu, segir blikur á lofti í versluninni sem þurfi að takast á við vaxtahækkanir og verðbólgu.
„Við óttumst jafnframt að verðhækkanir á erlendum mörkuðum á síðari hluta síðasta árs séu ekki að fullu komnar fram, enda er hækkandi hrávöruverð lengi að birtast í vöruverði. Þessar hækkanir eru mikið til bein afleiðing af stríðinu í Úkraínu og þá eru framleiðslukerfin í heiminum ekki að fullu komin í eðlilegt ástand eftir heimsfaraldurinn.“
Andrés segir dýra kjarasamninga, lífskjarasamninginn 2019 og nýafstaðinn samning, þrýsta á aukna notkun sjálfvirkni í versluninni. Jafnframt muni hækkandi húsnæðiskostnaður draga úr spurn eftir atvinnurýmum.
Jón Bjarki Bentsson, aðalhagfræðingur Íslandsbanka, bendir sömuleiðis á að verð á ýmsum hrávörum sé að lækka. Hins vegar hafi hækkanir á erlendum mörkuðum ekki að öllu leyti komið fram hér.
Sigurjón Örn Þórsson, framkvæmdastjóri Kringlunnar, segir verðbólguna farna að birtast í hækkandi húsaleigu hjá verslunum.
„Ég held að almennt hafi fyrirtækin reynt að beina þessu ekki út í verðlagið, sérstaklega í sérvörunni. Hversu lengi menn geta staðið á því er svo önnur saga,“ segir Sigurjón.
Lesa má meira um málið í Morgunblaðinu í dag.