Tvær stórar rústabjörgunarsveitir Bandaríkjamanna hafa óskað eftir áframhaldandi viðveru íslenska björgunarhópsins á skjálftasvæðununum í Tyrklandi.
Þær breytingar urðu á starfi Íslendinganna í dag að ákveðið var að starfsstöð björgunarhópsins, sem hefur verið í Antakya, yrði flutt og sett upp í búðum Bandaríkjamanna í Adiyaman. Óskað var eftir því að Íslendingar myndu fylgja með til að tryggja áfram samfellu í störfum alþjóðlegra björgunarsveita.
Farið var að líða að lokum starfa Íslendinga á svæðinu og ráðstafanir um heimferð gerðar þegar þessi ósk kom frá bandaríska hópnum, að því er fram kemur í tilkynningu.
Fjórir aðgerðastjórnendur hópsins voru því sóttir á þyrlu af bandaríska hópnum og flogið með þá til Adiyaman þar sem þeir munu vinna og dvelja í þeirra búðum.
Hinn hluti hópsins lagði af stað seinni partinn í dag til Adana-flugvallar, þar sem hann flýgur með svissneskum björgunarhóp til Sviss á morgun, mánudag. Þau gista þar eina nótt og áætluð heimkoma þeirra er á þriðjudaginn.