Hver kannast ekki við frasann „Hættu að væla, komdu að kæla“, sem heilsuþjálfarinn Vilhjálmur Andri Einarsson, ávallt kallaður Andri, notar sem nafn á námskeið sem hann heldur reglulega. Andri mun flytja erindi á heilsueflandi ráðstefnunni „Hugsaðu um heilsuna“ sem haldin verður í Hörpu þann 18. febrúar næstkomandi. Þar munu fleiri stíga á stokk, en bandaríski metsöluhöfundurinn James Nestor, sem skrifaði bókina Breath, mun tala um öndun og Dr. Susanna Søberg, sérfræðingur á alþjóðavísu í vísindum og notkun kulda og hita, ræðir um streitustjórnun til heilsubótar. Slysa- og bráðalæknirinn Kristín Sigurðardóttir mun ræða um streitu, hvernig hún gagnast okkur og hvenær hún hættir að vera gagnleg.
Kerfin okkar þurfa á örvun, að sögn Andra. Hann segir kalt vatn tilvalið til að kveikja aðeins á kerfinu. Andri segir fólk alls ekki vera að frjósa þegar það sitji ofan í köldu kari.
„Það er gott að taka smá dýfingar til að örva kerfið. Kuldinn er góð streita, en getur þú farið ofan í kalda vatnið og slakað á? Það er enginn að tala um að sitja í tuttugu mínútur í ísbaði, heldur að nota kuldann sem streitustjórnun,“ segir Andri og segir fólk geti hægt á öndun sinni og breytt með því líðan sinni.
„Þá hægist á hjartslætti og í kuldanum fer dópamínið upp um 250% og lætur okkur líða vel,“ segir hann og segir að allir geta notið góðs af því að anda rétt, líka fólk sem ekki þjáist af verkjum.
„Þessi ráðstefna er ekki bara fyrir fólk sem er lasið, hún er fyrir alla þá sem vilja bæta heilsuna.“
Ítarlegt viðtal er við Andra í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins um helgina.