Erindi ekki borist um að taka við særðum hermönnum

Runólfur Pálsson, forstjóri Landspítalans.
Runólfur Pálsson, forstjóri Landspítalans. mbl.is/Arnþór

Formlegt erindi um að Landspítalinn taki við særðum hermönnum frá Úkraínu hefur ekki borist spítalanum núna en það mun vafalítið gerast.

Þetta segir Runólfur Pálsson, forstjóri Landspítalans, spurður út í ummæli heilbrigðisráðherra í hádegisfréttum RÚV um að særðir úkraínskir hermenn gætu verið á leið til landsins á næstu vikum.

Runólfur vill annars ekki tjá sig frekar um málið að svo stöddu en segir að þessi möguleiki hafi verið einn af þeim sem ræddur var við stjórnvöld í byrjun stríðsins.

Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra.
Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra. Ljósmynd/Stjórnarráðið

Allt yfirfullt í Póllandi 

Pólsk sjúkrahús hafa tekið við langflestum særðum úkraínskum hermönnum undanfarna mánuði. Þau eru aftur á móti orðin yfirfull. Önnur Evrópulönd hafa boðist til að koma þeim til aðstoðar.

Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra sagði við RÚV að það eigi eftir að meta hvernig staðið verður að verkefninu. Það verður gert í samráði við sjúkrahús hérlendis, utanríkisráðuneytið og úkraínsk stjórnvöld. Vissulega sé skortur á legurýmum en Íslendingar séu aflögufærir að hans mati.

Ekki náðist í Willum Þór við vinnslu fréttarinnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert