Fuglamerkingamaðurinn Sverrir Thorstensen merkti sinn hundrað þúsundasta fugl í gær, en hann merkti auðnutittling sem hann náði í eigin garði á Akureyri.
Sverrir er öflugur vísindamaður á sviði fuglarannsókna, en hann merkti sína fyrstu fugla árið 1979, tvo lómsunga nærri Ljósavatni. Síðan þá hefur hann til að mynda dvalið löngum stundum í Flatey til fuglarannsókna og merkt fjölmargar fuglategundir víða um land.
„Ég haft áhuga á fuglum frá því að ég var barn og fyrir ákveðna tilviljun komst ég í samband við Náttúrufræðistofnun Íslands, en þeir sjá um að láta merkja fugla á Íslandi, þannig að ég svona datt inn í þetta fyrir tilviljun árið 1979,“ segir Sverrir.
Sverrir segir aðferðir við merkingar fugla vera misjafnar.
„Suma merkir maður sem unga í hreiðrum, stundum eltir maður uppi unga á hlaupum, svo tekur maður álftir þegar þær eru í fjaðrafelli á vötnum. Svo eru sumir fuglar bara teknir á hreiðrum, eins og bjargfuglar og ungar þeirra.“
Á veturna fóðrar Sverrir auðnutittlinga og snjótittlinga í garðinum sínum í sérstökum gildrum og nær þannig að merkja fuglana.
Sverrir hefur alls merkt 73 fuglategundir og segist hvergi nærri hættur.
„Ég ætla að halda þessu áfram meðan ég hef einhverja orku í þetta.“
Hann segist þó ekki vera að stefna að neinu markmiði hvað varðar fjölda fugla.
„Þetta þótti vera stórkostlegt markmið að ná þessum 100 þúsundum og svo bara held ég áfram, meðan ég geri eitthvert gagn með þessu.“
Sverrir hvetur að lokum fólk til þess að tilkynna það til Náttúrufræðistofnunar finni það merktan fugl.
„Merking á fugli skilar í raun og veru engum sérstökum upplýsingum nema að fuglinn sjáist aftur,“ segir Sverrir, en merkingar eru mikilvæg aðferð við rannsóknir á fuglum.