Fólki stóð uggur af æstum einstaklingi inni á bensínstöð N1 og var lögregla kölluð til. Haft var tal af viðkomandi og hann beðinn að yfirgefa vettvang.
Þá var hústökufólki vísað út úr húsi á Hverfisgötu, en þrír einstaklingar höfðu leitað þar húsaskjóls án leyfis.
Þetta kemur fram í dagbók lögreglu.
Tilkynnt var um einstakling á Miklubraut, vegna þess að viðkomandi dansaði þar með heyrnartól. Var hann farinn þegar lögreglu bar að garði og því ekki vitað meira um afdrif viðkomandi eða ástæðu danssporanna.
Mikinn reyk lagði frá einbýlishúsi í Hátúni. Enginn eldur gaus þó upp og engin slys urðu á fólki en reykurinn stafaði frá potti á hellu.
Einstaklingur sem svaf ölvunarsvefni fannst í anddyri í Asparfelli, en málið var leyst á vettvangi. Þá var tilkynnt um þjófnað í Kringlunni, og var málið afgreitt á vettvangi.
Loks stöðvaði lögregla nokkra ökumenn vegna aksturs undir áhrifum og hraðaksturs.