Íslensk pysja prýðir næstu forsíðu Smithsonian-tímaritsins, sem er eitt stærsta vísindatímaritið fyrir almennan markað. Tölublaðið er ekki komið út en það er væntanlegt í mars.
Fyrirsögnin er „Að bjarga lundaungunum“ (e. Saving the baby puffin). Um er að ræða grein sem er helst byggð á viðtali við Erp Snæ Hansen, forstöðumann á Náttúrustofu Suðurlands.
Erpur hefur verið í forsvari fyrir rannsóknir á íslenska lundastofninum, en í greininni leggur hann áherslu á nýjustu niðurstöður rannsóknarinnar, sem eru taldar varpa ljósi á það hvað skýri hina umtalsverðu fækkun síðustu ára.
Í samtali við mbl.is bendir Erpur á að árið 1995 hafi lundastofninn talið um 18,5 milljónir fugla. Síðan þá hefur stofninn minnkað um 70 prósent.
Erpur telur því ljóst að sjálfbærar lundaveiðar hafi ekki átt sér stað frá því árið 1995.
Nýjustu niðurstöður rannsóknarinnar benda til þess að þessa fækkun megi einkum rekja til tveggja þátta. Annars vegar til reglubundinnar fækkunar í stofni fiskitegundarinnar náttlampa, sem er helsta fæða lunda yfir vetrartímann.
Hins vegar virðist kísilstyrkur í hafinu vera að ná nýjum lægðum. Það valdi seinkun á vorblómgun þörunga, sem hafi svo keðjuverkandi áhrif upp fæðukeðjuna.
Lirfur sem klekjast út og nærast á grasbítum sem nærast á þörungunum, deyi áður en þörungarnir blómstra og þar með myndist ósamræmi í fæðukeðjunni, eða svokallað tropical temporal mismatch. Það geti skýrt nýliðunarbresti fiskitegunda og til að mynda það hvort makríll komi eða komi ekki.
„Lundinn er í raun besta leiðin til mæla þetta, en Hafró (Hafrannsóknarstofnun) mælir þetta bara fjórum sinnum á ári, meðan við erum með stöðugt eftirlit með lundunum og hvenær pysjurnar eru að klekjast út.“
Rannsóknir Erps eru vitaskuld athyglisverðar og með þeim fæst mikilvæg innsýn í lífríkið. Erpur segir það þó hjálpa til að lundarnir séu með fallegustu dýrum jarðar.
„Lundinn fær mikla athygli út á að vera svona sætur.“
Erpur á fund í vikunni með fulltrúum Umhverfisstofnunar og fleiri hagsmunaaðila. „Við ætlum að búa til veiði- og verndaráætlun fyrir lunda og reyndar rjúpu líka, þannig það er ýmislegt að gerast.“