Meginlínurnar í sáttmálanum standi fyrir sínu

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri.
Dagur B. Eggertsson borgarstjóri. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri kveðst ekki skynja vilja meðal annarra bæjarstjóra sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu að draga úr umfangi verkefna Samgöngusáttmálans.

Þvert á móti telur hann að flestir séu á sama máli um mikilvægi þess að flýta Borgarlínu og framkvæmdum við stofnvegi, fjármagna og tímasetja heildar hjólastígakerfi fyrir höfuðborgarsvæðið og taka Sæbrautarstokkinn að fullu inn í kostnaðarmat Samgöngusáttmálans.

Í aðsendri grein í Morgunblaðinu á fimmtudaginn sagði Ásdís Kristjánsdóttir, bæjarstjóri Kópavogsbæjar, að framkvæmdaáætlun Samgöngusáttmálans sé þegar komin 50 milljarða fram úr áætlun, þótt framkvæmdir séu vart hafnar. Nauðsynlegt væri að staldra við og endurmeta stöðuna.

Bæjarstjórar Garðabæjar, Hafnarfjarðar, Mosfellsbæjar og Seltjarnarness, virðast allir taka í sama streng og mun stjórn Sam­taka sveit­ar­fé­laga á höfuðborg­ar­svæðinu funda um málið.

Ásdís vilji varla fresta Arnarnesvegi

Dagur kveðst ekki skilja grein Ásdísar á þann veg að hún telji rétt að fresta Arnarnesvegi þótt kostnaðaráætlun hafi hækkað mikið.

„Ég held að við bæjarstjórarnir séum býsna samstíga í að skynsamlegt geti verið að gera viðauka við samgöngusáttmálann til að taka mið af því sem við vitum nú varðandi einstök verkefni og það sem við höfum lært á þeim tíma síðan skrifað var undir samgöngusáttmálann. Þetta höfum við verið að ræða í okkar hópi og í samtölum við forystu ríkisstjórnarinnar.“

En af viðtölum við bæjarstjórana mætti draga þá ályktun að þeir vilji frekar reyna að draga úr kostnaði, ertu ósammála því?

„Ég lít ekki þannig á að aðrir bæjarstjórar séu á móti stofnbrautarverkefnunum jafnvel þó að þau reiknist núna dýrari en í gömlum áætlunum Vegagerðarinnar. Arnarnesvegur er næstur í tíma og hann er auðvitað dæmi um framkvæmd sem er dýrari en við ætluðum við undirritun. Hringinn í kringum borðið held ég að það sé andinn að bæta í fjármögnun á heildarstígakerfi fyrir hjólandi, frekar en að draga þar úr. Allir átta sig einnig á mikilvægi Borgarlínunnar. Ég held að meginlínurnar í Samgöngusáttmálanum standi algjörlega fyrir sínu. Það er frekar að fólk vilji fara hraðar í ákveðin verkefni og bæta í, til dæmis varðandi Borgarlínu.“

Vilja herða á verkefnum

Davíð Þorláksson, framkvæmdastjóri Betri Samgangna, segir ekki rétt að framkvæmdaáætlun Samöngusáttmálans sé komin 50 milljarða fram úr áætlun, upphæðin sé mun lægri eða í kringum 17 milljarða.

Ástæðuna megi rekja til þess að verðlag hafi hækkað og stofnvegir farið fram úr áætlunum.

„Það er rétt hjá honum. Þetta eru annars vegar verðlagsbreytingar og hins vegar eru það Arnarnesvegurinn og matið á stofnvegunum sem hefur verið að hækka frá frumkostnaðarmati. Þetta væri hægt að ná utan um í einhvers konar viðauka við Samgöngusáttmálann en ég held að sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu sem hafa í millitíðinni sett sér sameiginlega loftslagsstefnu, til dæmis, myndu án efa í raun vilja að herða á þeim verkefnum sem að skilar okkur hraðar í átt að markmiðum okkar um breyttar ferðavenjur og árangri í loftslagsmálum,“ segir Dagur.

Framkvæmdir verði sýnilegri og sýnilegri

Að sögn Dags stendur sáttmálinn fyrir sínu og gengur undirbúningur vel. „Ég held að það megi segja að framkvæmdirnar á grundvelli hans muni verða sýnilegri og sýnilegri núna í ár og næstu misseri því að þetta er að komast af undirbúningsstigi og á framkvæmdastig.“

Hann segir aftur á móti rétt að verkefnið hafi þróast á þann veg að upphaflega kostnaðaráætlunin vegna framkvæmda á stofnbrautum hafi hækkað.

„Það á auðvitað sérstaklega við um Arnarnesveginn sem er eitt af fyrstu stóru verkefnunum sem er að fara í framkvæmd. Þar var frumkostnaðarmatið töluvert lægra heldur en endanleg niðurstaða.“

Miklabrautin þoli ekki annað hverfi

Tilkoma skipulags á Keldnalandi og uppbygging þar er eitt af þeim atriðum sem kallar á viðauka við Samgöngusáttmálann, að mati Dags.

„Það kallar á að við flýtum Borgarlínuverkefninu og að Borgarlína nái upp í Keldnaland og jafnvel áfram upp í Mosfellsbæ hraðar heldur en gert var ráð fyrir í upphaflegum áætlunum vegna þess að Miklabrautin þolir ekki eitt viðbótarhverfi sem bætist við með óbreyttum ferðavenjum. Í samningum um það var einnig ákveðið að flýta Borgarlínu í Efra-Breiðholt. Hafnarfjörður og Garðabær hafa einnig kallað eftir að Borgarlína komi fyrr þangað. Það eru fleiri og fleiri að átta sig á mikilvægi Borgarlínu til þess að öll umferð gangi vel, ekki síst með umferð einkabíla.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert