Skvísa í tólf mánuði

Ólafía Þórunn ætlar að leigja út handtöskur af dýrustu gerðum. …
Ólafía Þórunn ætlar að leigja út handtöskur af dýrustu gerðum. Ólafía segir þetta vera lúxusþjónustu heim að dyrum. mbl.is/Ásdís

Öflin sem toguðu í atvinnugolfarann fyrrverandi Ólafíu Þórunni beindu henni í átt að viðskiptum í tískuheiminum. Kristice heitir nýja fyrirtæki Ólafíu og á nú hug hennar allan.

„Þarna hef ég rými til að skapa eitthvað, en þetta verður ekki bara eitthvað eitt. Ég hef alla ævi verið svolítið fiðrildi og fengið fullt af hugmyndum en hef ekki haft tíma til að hrinda þeim í framkvæmd fyrr en nú. Ég fékk skemmtilega hugmynd um deilihagkerfi sem felst í því að fólk geti leigt sér handtöskur í stað þess að kaupa þær. Sem hagfræðingur og frumkvöðlafræðingur fannst mér þetta spennandi,“ segir Ólafía en nú er fyrirtækið Kristice orðið að veruleika og hægt að leigja töskur á kristice.is. 

Ólafía segir handtöskur eru svo frábærar til að poppa upp …
Ólafía segir handtöskur eru svo frábærar til að poppa upp fötin.

„Ég er enn að læra inn á þetta. Til að byrja með verður í boði annað hvort vikuleiga eða langtímaleiga,“ segir Ólafía og segist aðeins leigja út einstakar handtöskur frá þekktum vörumerkjum á borð við Gucci, Louis Vuitton og Yves Saint Laurent.

„Handtöskur eru svo frábærar til að poppa upp fötin og færa útlitið upp á næsta stig. Svo er þetta hugmynd sem auðvelt væri að heimfæra yfir á annað líka, en í byrjun hef ég þetta einfalt og verð með handtöskur,“ segir Ólafía.

„Þetta er hringrásarhagkerfi og hver taska fær þá meiri notkun,“ segir Ólafía en hún fór út fyrir landsteinana til að kaupa töskurnar, bjó sjálf til vefsíðuna og rannsakaði í þaula hvaða handtöskur hún vildi kaupa. Hún segir leiguverð tasknanna fara eftir andvirði þeirra og telur klárlega að þjónustu af þessu tagi vanti hér á landi.

„Það er til dæmis hægt að vera með tólf mánaða leigu og skipta mánaðarlega um tösku. Þannig ertu skvísa í tólf mánuði.“

Upplifun sem þú leyfir þér

„Ég átta mig á því að þetta er ný hugmynd og fólk þarf að venjast því, en fólk eyðir peningum í að þrífa bílana sína, fara í strípur eða á snyrtistofu og því ekki að eyða í að leigja sér fallegar handtöskur?“ spyr hún.

Ólafía segir næstu vikur og mánuði fara í að kynnast viðskiptavinum sínum.

„Ég hugsa þetta sem lúxusþjónustu og keyri með töskurnar heim að dyrum. Þetta á að vera upplifun sem þú leyfir þér,“ segir hún og segist vel geta sinnt golfinu meðfram þessari vinnu.

„Mig langar að gera góða hluti í golfi og gefa eitthvað til baka. Ég hef alveg tækifæri þar líka. Ég byrja á þessu og við sjáum hvað gerist!“

Ítarlegt viðtal við Ólafíu er í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins um helgina. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert