Tilkynnt var um ökumann sofandi undir stýri. Þegar lögreglan kom á vettvang svaf ökumaðurinn í bílstjórasætinu með fullan þunga á bensíngjöfinni með tilheyrandi látum. Illa gekk að ná sambandi við hann sökum ástands.
Ökumaðurinn var handtekinn grunaður um akstur undir áhrifum fíkniefna, fluttur á stöð þar sem hann lét í té blóð- og þvagsýni. Hann var látinn laus að sýnatöku lokinni.
Einstaklingur gekk berserksgang inni á athafnasvæði lögreglunnar í Hafnarfirði. Lögreglumenn gáfu sig á tal við viðkomandi sem sýndi ógnandi hegðun og hótaði að beita skotvopni. Einstaklingurinn reyndist sem betur fer óvopnaður. Hann var yfirbugaður og vistaður í fangaklefa fyrir að hafa ekki hlýtt fyrirmælum og brotið lögreglusamþykkt Hafnafjarðar.
Ökumaður hafði samband við lögreglu og tilkynnti um líkamsárás. Hann sagði tvo einstaklinga hafa sest inn í bifreiðina hjá sér án leyfis og annar þeirra hefði kýlt hann í andlitið. Þeir hefðu síðan flúið. Málið er í rannsókn, að því er segir í dagbók lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu þar sem greint er frá því sem gerðist frá klukkan 17 í gærkvöldi til klukkan 5 í morgun. Alls komu 99 mál á borð lögreglunnar og voru átta vistaðir í fangaklefa.
Tilkynnt var um þjófnað og líkamsárás í fyrirtæki í Breiðholti. Tveir eru grunaðir um þjófnað en þegar starfsmaður reyndi að ná tali af þeim veittist annar þeirra að honum og færði hann í hálstak. Vitni kom starfsmanninum til bjargar og aðstoðaði hann við það að losna úr hálstakinu.
Tilkynnt var um hópslagsmál á skemmtistað í miðborg Reykjavíkur. Lögregla fór á vettvang, fékk framburði frá vitnum og leitaði að sökudólgunum. Einnig barst tilkynningu um slagsmál fyrir utan veitingastað í miðbæ Reykjavíkur. Lögreglan óskaði eftir sjúkraliði vegna áverka á einum sem varð fyrir árásinni. Málið er í rannsókn.
Lögregla hafði afskipti af fjölmennri skemmtun á veitingastað í Árbænum þar sem flestir gestir voru undir 20 ára. Dyravörslu var sinnt án tilskilinna réttinda og staðurinn var ekki með tilskilin leyfi.
Tilkynning barst umdæmi lögreglunnar í Hafnarfirði og Garðabæ um einstakling í annarlegu ástandi með hníf sem hann sýndi þeim sem tilkynnti málið til lögreglu. Þeim síðarnefnda leist ekki á blikuna og lét sig hverfa frá staðnum en tók það samt fram að sá sem var með hnífinn hefði ekki verið ógnandi. Þegar lögreglan kom á vettvang var sá með hnífinn farinn af vettvangi.
Lögreglan hafði afskipti af einstaklingi sem var grunaður um þjófnað í hverfi 104 í Reykjavík. Við öryggisleit fannst hnífur með 8 sm blaði og er hann því einnig grunaður um vopnalagabrot.
Skotbómulyftara var stolið frá fyrirtæki í miðbæ Reykjavíkur. Lyftarinn fannst stuttu seinna skammt frá athafnasvæði fyrirtækis. Enginn er grunaður um verknaðinn að svo stöddu og málið er í rannsókn.
Umferðarslys varð í Háaleitis- og Bústaðahverfinu. Mikið tjón varð á bifreiðunum tveimur og þær óökufærar en einnig skemmdist umferðarviti. Óljóst er um slys á fólki. Skýrsla var rituð um málið.
Tilkynnt var um eld í hverfi 108 í Reykjavík. Lögreglan var send á vettvang til að kanna málið. Sá sem tilkynnti skoðaði aðstæður betur, hafði samband við lögregluna og staðfesti að um ljóskastara hefði verið að ræða en ekki eld.
Einstaklingur áreitti gesti í samkvæmi í umdæmi lögreglunnar í Hafnarfirði og Garðabæ. Hann neitaði að yfirgefa vettvang, fór ekki eftir fyrirmælum og var með ógnandi tilburði gagnvart lögreglu. Einstaklingurinn var handtekinn og fluttur á lögreglustöð 1 þar sem hann gisti fangaklefa.
Nokkuð var einnig um akstur ökumanna undir áhrifum vímuefna.