„Við erum í sjöunda himni. Þetta er frábær niðurstaða,“ segir Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, um úrskurð Landsréttar í máli ríkissáttasemjara gegn Eflingu.
Kröfu ríkissáttasemjara, um að fá afhenta skrá með kennitölum félagsmanna Eflingar eða að hún yrði gerð aðgengileg, var hafnað í Landsrétti í dag.
„Við reiknum með því að ríkissáttasemjari segi sig frá deilunni innan skamms og að annar verði skipaður í hans stað. Ég reikna með því að fleirum þyki það eðlilegt,“ segir Sólveig í samtali við mbl.is og heldur áfram.
„Jafnframt reikna ég með að Halldór Benjamín og aðrir sem hafa sakað mig ítrekað um lögbrot biðji mig afsökunar opinberlega. Ég reikna einnig með að það gerist innan skamms.“
Sólveig segir að næsta skref hjá Eflingu sé að fá skorið úr um lögmæti miðlunartillögunnar, sem hún segir ólögmæta. „Ég myndi halda að það sé fullur skilningur innan kerfisins um að veita flýtimeðferð í því máli.“
Efling stefndi ríkissáttasemjara fyrir héraðsdóm í því skyni að fá ógilta miðlunartillögu hans, sem kynnt var í lok janúar.
Efling boðaði til atkvæðagreiðslu um frekari verkföll í dag. Sólveig segir það í samræmi við það sem samninganefndin hefur alltaf sagt. „Við erum með plan sem nær langt fram í tímann og það er stórt og felur meðal annars þetta í sér.
Við tókum ákvörðun um þessar aðgerðir á síðasta fundi samninganefndar en þessar aðgerðir ná til um það bil 1600 félagsmanna.“
Sólveig segir að næsta á dagskránni sé fundur samninganefndar og áframhaldandi verkfallsvarsla.
„Þá erum við að undirbúa fund með þeim sem hefja verkfall á miðvikudag og svo munum við auðvitað gefa okkur tíma í kvöld til að fagna þessari stórkostlegu niðurstöðu.“