Reykjavíkurborg í samstarfi við Pólska Skólann og Barna- og fjölskyldustofu hefur gefið út upplýsingabækling sem er ætlaður fjölskyldum sem eru nýfluttar til Íslands.
Bæklingurinn, sem ber heitið Við og börnin okkar, skýrir ábyrgð, réttindi og skyldur foreldra og forsjármanna, auk þess sem fjallað er um menntun barna og velferð fjölskyldunnar, að því er fram kemur í tilkynningu Reykjavíkurborgar.
„Öll sem hafa einhvern tímann flutt til nýs lands vita hversu erfið fyrstu skrefin eru í framandi umhverfi. Fólk þarf að kynna sér marga nýja hluti á einu bretti; til dæmis hvernig haga á atvinnu- og húsnæðisleit og læra um réttindi og skyldur. Einnig getur reynt á þegar börn eru í fjölskyldunni og huga þarf að menntun og líðan þeirra,“ segir í tilkynningu.
Bæklingurinn kom fyrst út árið 2014 en hefur verið uppfærður og kemur út í tveimur útgáfum, annars vegar á íslensku og ensku og hins vegar á íslensku og pólsku. Á þessi framsetning að hjálpa innflytjendum að læra ýmis hugtök á íslensku og auðvelda ráðgjöfum að nota hann í samskiptum við innflytjendur.