Boða til fleiri verkfalla

Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar.
Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Stéttarfélagið Efling hefur boðað til atkvæðagreiðslu um fleiri verkföll.

Verkfallsboðunin tekur meðal annars til þeirra sem starfa við ræstingastörf hjá ræstingafyrirtækjum, öryggisvörslu og allra sem starfa á hótelum og gistihúsum.

Um er að ræða ótímabundna vinnustöðvun sem hefst klukkan 12 á hádegi þriðjudaginn 28. febrúar næstkomandi, nema kjarasamningar hafi tekist eða vinnustöðvun verði frestað fyrir þann tíma.

Atkvæðagreiðsla hefst á fimmtudaginn, 16. febrúar, og lýkur næsta mánudag, 20. febrúar. 

Upp­fært klukkan 12.16:

Boðanirnar eru eftirfarandi:

  • Verkfall á öllum gistiheimilum og hótelum á félagssvæði Eflingar. Þar undir falla hótelkeðjurnar Centerhotels og Keahótels, auk fjölda annarra hótela og gistihúsa. Áætlaður fjöldi er um sex hundruð manns. Með þessari vinnustöðvun yrðu öll störf undir kjarasamningum Eflingar á hótelum komin í verkfall.
  • Verkfall hjá öryggisvörslufyrirtækjum. Undir boðunina falla fyrirtækin Securitas og Öryggismiðstöð Íslands, auk smærri fyrirtækja. Um er að ræða um fjögur hundruð manns.
  • Verkfall hjá ræstingafyrirtækjum. Undir boðunina falla stærstu þriffyrirtæki landsins á borð við Sólar og Daga auk minni fyrirtækja. Áætlaður fjöldi á kjörskrá er um 650 manns.

Fyrri þrjár verkfallsboðanir félagsins voru samþykktar með afgerandi meirihluta og góðri kjörsókn. Atkvæðagreiðslur hefjast klukkan 12 á hádegi á fimmtudag og þeim lýkur klukkan 18 á mánudag eftir viku, að því er segir í tilkynningu frá Eflingu. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert