Efling hafði betur og þarf ekki að afhenda kjörskrá

Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar.
Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Landsréttur hafnaði kröfu ríkissáttasemjara í innsetningarmáli embættisins gegn Eflingu um að fá afhenta kjörskrá félagsins vegna miðlunartillögu sem ríkissáttasemjari setti fram. Niðurstaðan var kveðin upp fyrr í dag. Vísar Landsréttur í lögskýringargögn frá 1996 þar sem komi fram að ekki sé vilji löggjafans að veita ríkissáttasemjara þau völd að geta krafið stéttarfélag um kjörskrá, en ASÍ hafði mótmælt slíkum hugmyndum.

Efling og ríkissáttasemjari gerðu með sér samkomulag fyrir helgi sem kveður á um að aðfararbeiðni embættisins með aðstoð sýslumanns yrði frestað þangað til niðurstaða Landsréttar væri ljós. Að sama skapi gekkst Efling undir það að afhenda kjörskrána strax í kjölfar úrskurðarins ef það niðurstaðan félli sáttasemjara í hag. Þá skuldbundu báðir aðilar sig til þess að una úrskurði Landsréttar og verður hann því ekki kærður til Hæstaréttar.

Í úrskurði Landsréttar er vísað í lög um aðför frá 1989 og að þar sé aðför aðeins heimiluð ef manni sé með ólögmætum hætti aftrað að neyta réttinda sem hann telur sig eiga til umráða yfir einhverju. „Í þessu felst að áþreifanlegur hlutur er tekinn frá gerðarþola og fenginn gerðarbeiðanda til frambúðar á grundvelli þess að hann eigi rétt til umráðanna vegna eignarréttar eða annarra réttinda sem fela í sér heimild til umráðanna,“ segir í úrskurðinum.

Vísað er til þess að liggja þurfi fyrir hvort ríkissáttasemjari eigi lögbundið tilkall til umráða eða aðgangs að kjörskrá Eflingar og að sá réttur sé svo ljós að hægt sé að færa sönnur á hann með sönnunargögnum sem afla má. Segir Landsréttur að það feli í sér að sönnunargögnin þurfi að vera annað en framburður vitnis, matsgerð eða skoðunargerð. Þá þarf að liggja fyrir að kjörskráin sé til og að hún sé í vörslum sóknaraðila.

„Ætlað að stuðla að friðsamlegum samningum

Þá vísar dómur Landsréttar til þess að út frá lögskýringargögnum með frumvarpi frá 1996 um breytingar á lögum um stéttarfélög og vinnudeilur megi ráða að breytingunum hafi m.a. verið ætlað að bæta samskiptareglur á vinnumarkaði í því augnamiði að auðvelda og einfalda gerð kjarasamninga.

„Var breytingunum ætlað að stuðla að friðsamlegum samningum og draga úr átökum á vinnumarkaði og langvinnum vinnustöðvunum með skýrari leikreglum sem ættu að stuðla að frjálsum samningum á vinnumarkaði,“ segir í úrskurði Landsréttar.

Vísað er til orða í kafla laganna um atkvæðagreiðslur um að sáttasemjara sé heimilt „að efna til atkvæðagreiðslu“ utan kjörfundar og að „ákveða að atkvæðagreiðsla skuli fara fram.“ Hins vegar komi ekki fram í lögunum að aðila vinnudeilu sé skylt að afhenda sáttasemjara kjörskrá sína áður en til atkvæðagreiðslu kemur eða veita aðgang að kjörskránni. „Þá er hvergi í lögunum kveðið á um að varnaraðila sé heimilt að knýja aðila vinnudeilu til afhendingar kjörskrár eða aðgangs að henni við þær aðstæður að sá síðarnefndi telji sér það ekki skylt.“

Tillaga um aukin völd felld út

Þá segir að í tillögu að lögum um sáttastörf í vinnudeilu frá árinu 1978 hafi orðrétt sagt: „Áður en atkvæðagreiðsla hefst skal afhenda sáttasemjara kjörskrá.“ Þessi tillaga hafi hins vegar verið felld út áður en frumvarpið varð að lögum eftir tillögu félagsmálanefndar. Var breytingin á frumvarpinu gerð að fengnum umsögnum frá Alþýðusambandi Íslands og Vinnuveitendasambandi Íslands.

Segir Landsréttur að út frá lögskýringargögnum verði skýrlega ráðið að ekki var samstaða milli aðila vinnumarkaðarins um hvort rétt væri að veita ríkissáttasemjara umráð yfir kjörskrá stéttarfélaga og að ASÍ hafi verið mótfallið slíkri tillögu og því hafi umrædd tillaga verið felld út úr frumvarpinu til að tryggja framgang þess. Þá sé það vilji löggjafans að sátt sé um málið og er því umrædd tillaga felld út.

„Hafnað er kröfu varnaraðila, ríkissáttasemjara, um að fá afhenta eða gerða sér aðgengilega úr hendi sóknaraðila, Eflingar stéttarfélags, með beinni aðfarargerð skrá í vörslum sóknaraðila með kennitölum allra atkvæðisbærra félagsmanna hans sem teljast á kjörskrá sóknaraðila miðað við 26. janúar 2023 og hafa atkvæðisrétt í atkvæðagreiðslu um miðlunartillögu varnaraðila, sem lögð var fram 26. janúar 2023 í kjaradeilu sóknaraðila og Samtaka atvinnulífsins,“ segir í úrskurðarorðum Landsréttar.

Í tilkynningu á vef Eflingar, þar sem úrskurðurinn er birtur, er haft eftir Sólveigu Önnu Jónsdóttur, formanni Eflingar, að um áfellisdóm sé að ræða yfir sáttasemjara. „Þetta er versti áfellisdómur yfir vinnubrögðum ríkissáttasemjara sem hægt var að hugsa sér. Ég treysti því að íslenska ríkið taki rækilega til í sínum ranni gagnvart kjaradeilu Eflingar og SA í ljósi þessarar niðurstöðu. Við krefjumst þess að Aðalsteinn Leifsson verði látinn segja sig samstundis frá deilunni. Við fögnum þessari niðurstöðu innilega.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka