„Það er auðvitað ljóst að áhrifin verða veruleg og víðtæk, sérstaklega á stórhöfuðborgarsvæðinu.“
Þetta segir Frosti Ólafsson, framkvæmdastjóri Olís, um mögulegar afleiðingar verkfalls vörubifreiðastjóra sem starfa undir kjarasamningum Eflingar við Samtök atvinnulífsins.
Ótímabundin vinnustöðvun vörubifreiðastjóra hefst klukkan 12 á hádegi næstkomandi miðvikudag.
Olíufélögin Olís og N1 hafa í samstarfi við Olíudreifingu kortlagt þau áhrif sem yfirvofandi verkfall olíuflutningabílstjóra gæti haft á starfsemi félaganna og eldsneytisbirgðir í landinu og gerð hefur verið áætlun um mótvægisaðgerðir eins og hægt er.
Hörður Gunnarsson framkvæmdastjóri Olíudreifingar segir að fyllt verði á allar afgreiðslustöðvar, sem ekki verður hægt að flytja eldsneyti til, meðan á verkfalli stendur.
Frosti segir að þeim dreifingarbifreiðum sem verði til staðar verði forgangsraðað og þá muni félögin halda uppi upplýsingagjöf gagnvart viðskiptavinum sínum um stöðu mála.
Hörður segir nægan mannafla til að bregðast við forgangsmálum. Verkfallsnefnd Eflingar þurfi að veita undanþágur þegar það á við.
„Ég á ekki von á öðru en að undanþágur fáist til heilbrigðisstétta og lögreglu til dæmis.“
Snertir verkfallið eingöngu hagsmuni einstaklinga og fyrirtækja á stórhöfuðborgarsvæðinu?
Hörður segir áhrif verkfalls ná út fyrir stórhöfuðborgarsvæðið.
„Starfsemin ætti að vera eðlileg á Snæfellsnesi og svona um það bil frá Blönduósi austur á Langanes og þaðan suður með og alveg að Kirkjubæjarklaustri,“ segir hann.
Hörður segir að afgreiðslustöðvar olíufélaganna hafi um þriggja sólarhringa birgðir en ekki ætti að koma til skorts á gasolíu sem flutt er með skipum.
„Það er talað um að við getum lifað fimmtudag og föstudag við þetta ástand,“ segir hann.
Hann segir auðvitað óljóst hvort það verði áhlaup þegar verkfallið hefst og fólk fari að taka meira eldsneyti.
„Þá auðvitað styttist þessi tími.“
Hörður bendir á að það sé varhugavert að kaupa og geyma eldsneyti í brúsum við alls konar aðstæður.
„Það er áhættuatriði,“ segir Hörður Gunnarsson, framkvæmdastjóri Olíudreifingar.