„Hnoðuðum hann í meira en klukkutíma“

Einn af samferðamönnum Ingólfs Davíðs Sigurðssonar í Himalajafjallgarðinum, lést af völdum hjartaáfalls. Ingólfur tók þátt í að hjartahnoða manninn í rúma klukkustund en þeir voru í rúmlega fjögur þúsund metra hæð í indverska hluta Himalajafjalla. „Raunveruleikinn þarna er bara sá að sjúkrabíllinn kom ekki,“ segir Ingólfur Davíð í Dagmálum.

Aðstæður sem leiðangurinn var í reyndust afskaplega erfiðar. Hæðin sem þeir gistu í var 4.300 metrar yfir sjávarmáli og þeir leituðu enn hærra þegar þeir voru að reyna að finna snjóhlébarða til að mynda.

Leitin að þessu sjaldgæfasta kattardýri heims var einmitt tilgangur leiðangursins. Ingólfur Davíð segir að aðstæður hafi reynt mjög á líkamlegt atgervi leiðangursmanna og fann hvernig eigin heilsu hrakaði dag frá degi.

Einungis um þrjú þúsund dýr

Hæst fóru leiðangursmenn í fimm þúsund metra og þá er súrefnismettun í andrúmsloftinu orðin mun minni en því sem við eigum að venjast. Ingólfur Davíð þjáðist af miklum höfuðverkjum í allan tímann og hann var mjög andstuttur.

Þrátt fyrir þessa erfiðleika heppnaðist leiðangurinn vel og þeir náðu einstökum myndum af snjóhlébörðum. Í dag er talið að einungis séu um þrjú þúsund dýr í stofninum og er þetta kattardýr talið í útrýmingarhættu.

Ferðasaga Ingólfs Davíðs er rakin í Dagmálum í dag og geta áskrifendur Morgunblaðsins séð eða hlustað á þáttinn í heild sinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert