Ísþekja sem náði yfir samtals 487 hektara svæði á Öskjuvatni er nú bráðnuð. Er nú svo komið að samfelld ísþekja er aðeins til staðar á norðausturhluta vatnsins, við Víti.
Þetta sýnir ný gervitunglamynd frá Sentinel 2-gervihnetti Geimvísindastofnunar Evrópu, sem rannsóknarstofu HÍ í eldfjallafræðum og náttúruvá hefur borist.
„Mikið er um gisinn ís sem nú er á milli íslausu svæðanna tveggja,“ segir í tilkynningu frá rannsóknarstofunni.
Greint var frá því fyrr í dag að samkvæmt mælingum hefði vökin á vatninu verið 205 hektarar að stærð á laugardag, og þá stækkað um 50 hektara frá því á föstudag.
Eins og greint var frá á síðasta ári hefur land tekið að rísa við eldstöðina, en það hefur ekki gerst áratugum saman.
Rishraðinn í Öskju þykir óvenjumikill, ef miðað er við sambærileg eldfjöll í heiminum.