Meirihluti frá Venesúela

Samsett mynd

900 af 1.400 umsóknum um alþjóðlega vernd, sem bíða afgreiðslu hjá Útlendingastofnun, eru frá ríkisborgurum Venesúela. Ferðaþjónustufyrirtæki í landinu benti viðskiptavinum sínum á að koma til Íslands til þess að njóta réttinda sem hælisleitendur fái, séu umsóknir þeirra samþykktar.

Jón Gunnarsson dómsmálaráðherra segir dæmi sem þessi ömurleg. Stjórnvöld hafi gert sér grein fyrir þeim. „Við búum við það að kærunefnd útlendingamála komst að þeirri niðurstöðu að borgurum frá Venesúela skyldi veitt hér sérstök viðbótarvernd. Það er eitt af því sem við veitum umfram aðrar Evrópuþjóðir,“ segir hann í samtali við Morgunblaðið.

„Við þessu verðum við að bregðast vegna þess að þróunin í þessum málum getur ekki haldið áfram með þeim hætti sem verið hefur,“ segir Jón.

Honum sé kunnugt um að stofnunin afli gagna um aðstæður í landinu. Úrskurðurinn var kveðinn upp í júlí á síðasta ári og hefur bundið hendur stofnunarinnar.

Útlendingastofnun segir umsóknir hælisleitenda frá Venesúela ekki hafa verið afgreiddar jafnhratt síðustu vikur og vikurnar þar á undan, en viðtöl eru áfram tekin við umsækjendur. Stofnunin er samhliða því að rýna heimildir og afla frekari upplýsinga um ástandið í landinu.

Árið 2022 var 4.518 manns veitt alþjóðleg vernd hér á landi, þar af 2.345 frá Úkraínu, 1.199 frá Venesúela og 232 frá Palestínu.

Nánari umfjöllun er að finna í Morgunblaðinu í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert