Örtröð hefur myndast við bensínstöðvar á höfuðborgarsvæðinu en eins og sjá má á meðfylgjandi myndum hafa langar bílaraðir verið við bensíndælurnar í dag.
Ætla má að aðsteðjandi verkfall olíubílstjóra, sem að öllu óbreyttu hefst á hádegi á miðvikudaginn, hafi eitthvað með þetta að gera.
Borið hefur á því að fólk geri sér ferð í verkfæraverslanir í því skyni að kaupa bensínbrúsa til að búa sig undir verkfallið.
Hinrik Örn Bjarnason framkvæmdastjóri N1 sagði við Morgunblaðið í síðustu viku að áhrif mögulegs verkfalls gætu komið mjög sterkt fram eftir mjög fáa daga.
Á stærstu stöðvum N1 á suðvesturhorni landsins, þar sem viðskiptin eru mest, séu að jafnaði eldneytisbirgðir í tönkum til tveggja til þriggja daga í senn. Á öðrum stöðvum dugi skammturinn kannski í eina viku, miðað við algeng dagsviðskipti.