Efling og Íslandshótel hafa náð samkomulagi um framkvæmd verkfallsvörslu Eflingar á hótelunum.
Tvö pör verkfallsvaða fara saman og heimsækja stærri hótel Íslandshótela í hverri heimsókn, samkvæmt tilkynningu frá Eflingu.
Með stærri hótelum er vísað til Hótels Reykjavík Grand og Fosshótels Reykjavík. Pörin munu hvort í sínu lagi fara um húsnæði viðkomandi hótels.
Annað parið heimsækir smærri hótelin í hverri heimsókn. Með smærri hótelum er vísað til Hótels Reykjavík Centrum, Hótels Reykjavík Sögu, Fosshótels Baróns, Fosshótels Lindar og Fosshótels Rauðarár.
Verkfallsverðirnir verða ekki með gjallarhorn eða dreifimiða og ónáða ekki gesti.
Aðgengi verkfallsvarða að vinnurýmum hótelsins, þar með töldum þvotahúsum, verður ekki hamlað.
Vegna heilbrigðissjónarmiða verður ekki farið inn í eldhús en dyr inn í eldhús verða opnaðar til að hægt verði að sjá inn.
Verkfallsverðirnir munu gefa sig fram í móttöku hótels þegar þeir koma á vettvang en það ætti ekki að tefja upphaf verkfallsvörslu eftir að þeir koma á vettvang.
Ekki er gerð athugasemd við að einn starfsmaður hótelsins fylgi þeim en öryggisverðir fylgja ekki verkfallsvörðunum.
Þá segir í tilkynningu Eflingar að samkomulagið hafi náðst milli Eflingar og Íslandshótela í gegnum tölvupóst í gær, 12. febrúar, og að afrit af öllum samskiptunum hafi farið á netfang lögreglu höfuðborgarsvæðisins.