Sonja Ýr Þorbergsdóttir, formaður BSRB, segir að tal um fjölgun og launaskrið á opinberum markaði standist ekki skoðun þegar horft er til greiningar fjármálaráðuneytisins.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá BSRB.
„Hagsmunasamtök atvinnurekenda og viðskipta kjósa að eyða tíma og fjármunum í að reyna að afvegaleiða umræðuna til að þjóna hagsmunum fyrirtækja sem hafa það að meginmarkmiði að greiða sér út sem mestan arð. Staðhæfingar þeirra um fjölgun og launaskrið opinberra starfsmanna standist ekki skoðun sé horft til greininga fjármálaráðuneytisins, Kjaratölfræðinefndar, Hagstofunnar eða BSRB,“ segir í tilkynningu.
„Með þessu er gerð tilraun til að slá ryki í augu fólks og væntanlega er leikurinn til þess gerður að draga athyglina frá því að fjölmörg fyrirtæki högnuðust á þeim aðstæðum sem mynduðust í heimsfaraldrinum og önnur fengu háa styrki frá ríkinu vegna áhrifa hans en eru um þessar mundir að greiða sér út ríkulegan arð. Mögulega er það til að draga athyglina frá því hvaða áhrif skortur á eftirliti hefur, líkt og fréttir síðustu viku af fiskeldi sýndu fram á. Eða mögulega er raunverulega ástæðan sú að við búum enn í mjög kynjuðu samfélagi þar sem karlar sem njóta valda á grundvelli peninga nýta stöðu sína til að vinna gegn jafnrétti kynjanna hvort heldur er varðar laun, starfsumhverfi eða stöðu kvenna í samfélaginu almennt.”
„Nýjustu opinberar tölur um fjölda opinberra starfsmanna er að finna á vef fjármálaráðuneytisins. Þar sést að fjöldi opinberra starfsmanna á hverja 1.000 íbúa í landinu hefur nánast staðið í stað frá árinu 2014. Árið 2021 var óvenjulegt vegna fjölgunar starfsfólks vegna álags af heimsfaraldri á heilbrigðiskerfið og vegna sóttvarnaaðgerða og einnig vegna sérstakra atvinnuúrræða fyrir fólk á atvinnuleysisskrá. Þrátt fyrir aukið álag hefur opinberum störfum þannig ekki fjölgað miðað við höfðatölu – það þýðir einfaldlega meira álag á opinbert starfsfólk og verri þjónusta fyrir almenning,“ segir í tilkynningu.
„Skýrslur Kjaratölfræðinefndar sýni auk þess að laun séu hæst á almenna markaðnum en launin hjá hinu opinbera eru almennt lægri. Þar sem áherslan í Lífskjarasamningunum var á að hækka lægstu laun hafði það hlutfallslega meiri áhrif á opinbera markaðnum en þeim almenna en þeir hópar sem hækkuðu hlutfallslega mest á síðasta kjarasamningstímabili voru konur í láglaunastörfum,“ segir í tilkynningu.