Skemmdir á nánast öllum vegum

Mikil rigning hefur verið um sunnan- og vestanvert land í …
Mikil rigning hefur verið um sunnan- og vestanvert land í dag með tilheyrandi vatnavöxtum í ám. Ljósmynd/Ragnheiður Pálsdóttir

Vatn og klaki flæða yfir vegi á Vesturlandi og Vestfjörðum, og er víða ófært vegna þess en mikil rigning hefur verið um sunnan- og vestanvert landið í dag með tilheyrandi vatnavöxtum. Ár hafa flætt yfir bakka sína, snjór bráðnað hratt og aurskriður og krapaflóð fallið.

„Það er búið að vera ofboðslegt vatnsveður og alls staðar eru skemmdir á vegum þar sem að ræsi hafa hreinlega ekki undan. Það verður til þess að það flæðir yfir vegi og dregur þá í sundur. Það eru búnar að vera nánast skemmdir á öllum vegum hjá okkur í Dalasýslunni,“ segir Sæmundur Kristjánsson, yfirverkstjóri hjá Vegagerðinni í Búðardal.

Búið er að loka fyrir umferð víða á Vesturlandi en ófært er um Fellsströnd og Skarðsströnd vegna vatnavaxta. Heimreiðar hafa farið í sundur og eru því nokkrir bæir vegasambandslausir í Haukadal, Hörðudal, í Miðdölum og úti á Skarðsströnd. Þá er þjóðvegurinn út á Snæfellsnes að fara í sundur. 

„Þar er að gefa sig stórt ræsi, reyndar tvö sett af ræsarörum, þar er vegurinn að rofna alveg.“

Á fullu með mörg tæki

„Við erum á fullu með mörg tæki að bjarga því sem bjargað verður og það hefur svo sem gengið ágætlega. Við höfum náð að bjarga ansi miklu en ekki öllu. Saurbærinn er alveg umflotinn vatni. Algjörlega. Ég hef aldrei séð svona ofboðslegt vatnsmagn þar. Þar falla talsverðar skriður úr fjöllunum og ansi mörg gil að spýta úr sér í miklum djöfulgangi.“

Að sögn Sæmundar virðist vera að draga úr úrkomunni og binda starfsmenn Vegagerðarinnar vonir við að ástandið fari skánandi og að hægt verði að ná utan um ástandið á morgun.

Slæmar brotholur í klæðningunni

Veðurspár gera ráð fyrir áframhaldandi hættu á krapaflóðum, skriðuföllum og vatnavöxtum fram á kvöld. Vegfarendur eru beðnir um að sýna aðgát en ekki er talin ástæða til rýminga í þéttbýli.

„Það eru víða skemmdir og svo eru víða að verða slæmar brotholur í klæðningunni eða slitlaginu út af þessu ofboðslega vatnsveðri. Við förum í að gera við þetta á morgun og næstu daga.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert