Skemmdir á nánast öllum vegum

Mikil rigning hefur verið um sunnan- og vestanvert land í …
Mikil rigning hefur verið um sunnan- og vestanvert land í dag með tilheyrandi vatnavöxtum í ám. Ljósmynd/Ragnheiður Pálsdóttir

Vatn og klaki flæða yfir vegi á Vest­ur­landi og Vest­fjörðum, og er víða ófært vegna þess en mik­il rign­ing hef­ur verið um sunn­an- og vest­an­vert landið í dag með til­heyr­andi vatna­vöxt­um. Ár hafa flætt yfir bakka sína, snjór bráðnað hratt og aur­skriður og krapa­flóð fallið.

„Það er búið að vera ofboðslegt vatns­veður og alls staðar eru skemmd­ir á veg­um þar sem að ræsi hafa hrein­lega ekki und­an. Það verður til þess að það flæðir yfir vegi og dreg­ur þá í sund­ur. Það eru bún­ar að vera nán­ast skemmd­ir á öll­um veg­um hjá okk­ur í Dala­sýsl­unni,“ seg­ir Sæmund­ur Kristjáns­son, yf­ir­verk­stjóri hjá Vega­gerðinni í Búðar­dal.

Búið er að loka fyr­ir um­ferð víða á Vest­ur­landi en ófært er um Fells­strönd og Skarðsströnd vegna vatna­vaxta. Heim­reiðar hafa farið í sund­ur og eru því nokkr­ir bæir vega­sam­bands­laus­ir í Hauka­dal, Hörðudal, í Miðdöl­um og úti á Skarðsströnd. Þá er þjóðveg­ur­inn út á Snæ­fells­nes að fara í sund­ur. 

„Þar er að gefa sig stórt ræsi, reynd­ar tvö sett af ræsarör­um, þar er veg­ur­inn að rofna al­veg.“

Á fullu með mörg tæki

„Við erum á fullu með mörg tæki að bjarga því sem bjargað verður og það hef­ur svo sem gengið ágæt­lega. Við höf­um náð að bjarga ansi miklu en ekki öllu. Saur­bær­inn er al­veg um­flot­inn vatni. Al­gjör­lega. Ég hef aldrei séð svona ofboðslegt vatns­magn þar. Þar falla tals­verðar skriður úr fjöll­un­um og ansi mörg gil að spýta úr sér í mikl­um djöf­ul­gangi.“

Að sögn Sæ­mund­ar virðist vera að draga úr úr­kom­unni og binda starfs­menn Vega­gerðar­inn­ar von­ir við að ástandið fari skán­andi og að hægt verði að ná utan um ástandið á morg­un.

Slæm­ar brot­hol­ur í klæðning­unni

Veður­spár gera ráð fyr­ir áfram­hald­andi hættu á krapa­flóðum, skriðuföll­um og vatna­vöxt­um fram á kvöld. Veg­far­end­ur eru beðnir um að sýna aðgát en ekki er tal­in ástæða til rým­inga í þétt­býli.

„Það eru víða skemmd­ir og svo eru víða að verða slæm­ar brot­hol­ur í klæðning­unni eða slit­lag­inu út af þessu ofboðslega vatns­veðri. Við för­um í að gera við þetta á morg­un og næstu daga.“

mbl.is
Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert