Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair, segir það hafa slæm áhrif á samkeppnishæfni Keflavíkurflugvallar sem alþjóðlegrar tengimiðstöðvar, verði kerfi Evrópusambandsins, fyrir viðskipti með heimildir til losunar á gróðurhúsalofttegundum, tekið upp í EES-samninginn án þess að Íslandi verði veittar undanþágur.
„Vegna landfræðilegrar legu Íslands, bitnar þetta, ef af verður, verr á tengimiðstöðinni í Keflavík en öðrum tengimiðstöðum sem hún keppir við. Meðalflugleggur hjá okkur innan Evrópu er um 2.200 km að lengd á meðan meðalflugleggur innan Evrópu er um 800 km að lengd,“ segir Bogi. Icelandair hefur, ásamt fleiri flugrekendum hér á landi, haft samband við stjórnvöld vegna málsins.
„Þetta veldur því að ef kerfið verður sett á, og ekki verður tekið tillit til sérstöðu Íslands, þá mun hlutfallslega hærra gjald leggjast á tengiflug í gegnum Ísland en aðrar tengimiðstöðvar, sem hefur neikvæð áhrif á samkeppnishæfnina,“ segir Bogi. Kýpur og Malta séu á meðal landa sem hafi fengið sérmeðferð vegna landfræðilegrar legu sinnar og því sé eðlilegt að Ísland fái það líka, sem eyja í miðju Atlantshafi.
„Ef ekki verður tekið tillit til sérstöðu Íslands þá verður svokallaður kolefnisleki (e. carbon leakage), þ.e. flug mun ekki minnka heldur færast til. Það færist frá tengimiðstöðinni í Keflavík til annarra tengimiðstöðva sem fara ekki eins illa út úr gjaldtökunni, eða jafnvel til landa sem eru ekki innan Evrópska efnahagssvæðisins, eins og til dæmis Bretlands,“ segir Bogi. Í raun óski flugfélög og stjórnvöld eftir því að Ísland beri sömu byrðar og önnur lönd, en ekki meiri vegna landfræðilegrar legu landsins.
Nánari umfjöllun er að finna í Morgunblaðinu í dag.