Einhvers konar sprenging virðist hafa orðið á bensínstöð við Álfheima og er slökkvilið höfuðborgarsvæðisins á leiðinni á vettvang til þess að tryggja aðstæður.
Þetta staðfestir Sigurjón Hendriksson, varðstjóri yfir aðgerðastjórn á höfuðborgarsvæðinu, í samtali við mbl.is.
Talið er að sprengingin hafi orðið vegna metangaskúts.
Uppfært kl. 15.09:
Tveir voru fluttir á slysadeild til skoðunar. Enginn eldur kom upp en að minnsta kosti tveir bílar eru tjónaðir.
Tilkynning barst slökkviliðinu klukkan 14.20 en sprengingin heyrðist víða.
Ekki liggur fyrir hvað orsakaði sprenginguna en bíllinn sem sprengingin varð í stóð við metangasdælurnar hjá Olís í Álfheimum. Tæknideild lögreglunnar, Vinnueftirlitið og fleiri aðilar eru komnir á vettvang. Búið er að rýma vettvang og tryggja aðstæður.