Slökkviliðið á höfuðborgarsvæðinu sinnir nú útkalli vegna umferðarslyss á Reykjanesbraut en vakthafandi varðstjóri þar getur ekki veitt neinar upplýsingar um eðli slyssins eða alvarleika eins og sakir standa.
Uppfært 08:57
Reykjanesbraut er lokuð í báðar áttir vegna slyssins, á einbreiða kaflanum sunnan við álverið. Þetta kemur fram í færslu lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu á Facebook.
Umferð er beint um Krýsuvíkurveg á meðan vegurinn er lokaður.
Uppfært 09:07
Samkvæmt upplýsingum frá slökkviliði er um að ræða árekstur tveggja bifreiða og voru tveir fluttir á sjúkrahús í kjölfarið. Tvær dælubifreiðar og þrjár sjúkrabifreiðar fóru á vettvang ásamt lögreglu.
Uppfært 10:20
Að sögn varðstjóra hjá slökkviliði var bifreiðunum ekið hvorri framan á aðra og eru meiðsl annars þeirra, sem fluttur var á slysadeild, alvarleg en hann er þó með meðvitund. Hinn kom sér á slysadeild af eigin rammleik. Beita þurfti klippum til að ná þeim sem verr slasaðist út úr bifreiðinni. Búið er að opna Reykjanesbraut á ný í báðar áttir.