Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra, ætlar að verða við beiðni Aðalsteins Leifssonar ríkissáttasemjara um að fá að stíga til hliðar sem sáttasemjari í kjaradeilu Eflingar og Samtaka atvinnulífsins.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá ráðherranum.
Aðalsteinn sagðist fyrr í kvöld ekki vilja að hans eigin persóna yrði hindrun í vegi þess að ná fram niðurstöðu í kjaradeilunum og þess vegna hafi hann viljað stíga til hliðar.
Tilkynning Guðmundar Inga:
Aðalsteinn Leifsson, ríkissáttasemjari, hefur óskað eftir því að stíga til hliðar í kjaradeilu Eflingar og Samtaka atvinnulífsins og að tilnefndur verði aðstoðarsáttasemjari til að vinna að lausn deilunnar, sbr. 4. mgr. 20. gr. laga um stéttarfélög og vinnudeilur, nr. 80/1938. Í ljósi stöðunnar sem upp er komin í deilu þessara aðila þá tel ég rétt að verða við þeirri beiðni.