Vökin á Öskjuvatni stækkar hratt en flatarmál hennar jókst um 50 hektara á milli föstudags og laugardags, og var þá orðin 205 hektarar að stærð.
Þetta kemur fram í færslu rannsóknarstofu Háskóla Íslands í eldfjallafræði og náttúruvá, á Facebook.
„Hér sýnum við fjórar myndir af Öskjuvatni, frá Landsat 8/8 og Sentinel 2 (NASA og ESA). Vökin stækkar frekar hratt og jókst flatarmál hennar um 50 hektara á milli föstudags og laugardags. Á myndinni frá 11. febrúar setjum við líka inn graf sem sýnir flatarmálsaukningu frá því í janúar. Við fylgjumst áfram með,“ segir í færslunni.
Rannsóknarstofan vakti athygli á því á föstudaginn að vakir í ís Öskjuvatns væru afbrigðilega stórar. Í færslunni sagði að einungis væri hægt að skýra þessa þróun með auknum jarðhita í vatninu.
„Það er í takt við þau ummerki sem mælst hafa, landris og skjálfta (sjá Veðurstofa Íslands). Það er því vert að vera vel vakandi hvað Öskju varðar þessa dagana.“