„Ábyrgð þeirra er mikil“

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félagsmála- og vinnumarkaðsráðherra.
Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félagsmála- og vinnumarkaðsráðherra. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félagsmála- og vinnumarkaðsráðherra, segir mikilvægt að Efling og Samtök atvinnulífsins fái næði til þess að setjast niður með nýjum ríkissáttasemjara.

„Stóra verkefnið er núna að aðilarnir setjist niður og nái að leysa sín mál. Ég held að þeir þurfi að fá næði til þess en aðilar þurfa líka að einhenda sér í þessa vinnu. Það er mikið í húfi og mikilvægt að vinna þetta hratt og örugglega.“

„Auðvitað hefur maður áhyggjur“

Ástráður Haraldsson hefur verið skipaður í embætti ríkissáttasemjara, eftir að Aðalsteinn Leifsson steig til hliðar.

Olíubílstjórar hefja verkfall á morgun og hefur mbl.is fjallað um áhyggjur flugrekenda, ríkisstofnana og almennings af mögulegum olíuskorti.

„Auðvitað hefur maður áhyggjur af öryggismálum en við skulum sjá hvað gerist núna. Ég hef líka trú á því að aðilarnir reyni raunverulega að setjast niður til þess að leysa þessi mál. Ábyrgð þeirra er mikil og ég biðla til þeirrar ábyrgðar. En auðvitað hefur maður áhyggjur af því sem getur gerst ef verkföll dragast á langinn, að sjálfsögðu,“ segir Guðmundur.

Skoða þarf löggjöfina

Spurður hvort úrskurður Landsréttar kalli á endurskoðun laga um stéttarfélög og vinnudeilur segir hann:

„Ég held það sé ljóst miðað við úrskurð Landsréttar að við þurfum að skoða löggjöfina. Það sem Landsréttur segir er að það er hægt að leggja fram miðlunartillögu en það er ekki hægt að framkvæma hana. Nema báðir aðilar séu sammála um að afhenda kjörskrár. Eðli máls samkvæmt þurfum við að skoða þetta mál og við munum að sjálfsögðu gera það í framhaldinu.“

Spurður hvort Ástráði sé kleift að kæra úrskurð Landsréttar til Hæstaréttar segir Guðmundur:

„Við höfum ekki skoðað það og ég vænti þess ekki að hann geri það. Það er ekki eitthvað sem hefur verið til umræðu á þessum tímapunkti.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert