Bensínbrúsar seldust hratt upp

Verkfall olíubílstjóra hjá Samskipum, Olíudreifingu og Skeljungi hefst á hádegi …
Verkfall olíubílstjóra hjá Samskipum, Olíudreifingu og Skeljungi hefst á hádegi á morgun og er ótímabundið. mbl.is/Unnur Karen

20 lítra og 10 lítra bensínbrúsar urðu nánast uppseldir strax í gær hjá N1 að sögn Eiríks Ingimagnssonar, aðstoðarverslunarstjóra í verslun N1 í Klettagörðum, en verkfall olíubílstjóra hjá Samskipum, Olíudreifingu og Skeljungi hefst á hádegi á morgun og er ótímabundið. 

„Einhverjar bensínstöðvarnar okkar eiga 10 lítra bensínbrúsa en 20 lítra brúsar seldust upp strax á mánudeginum,“ segir hann í samtali við mbl.is og nefnir að einungis 5 lítra brúsar séu til á Klettagörðum. 

Spurður hvort hann haldi að fólk sé meðvitað um hvernig skuli geyma brúsa fulla af bensíni segir Eiríkur að það sé líklega upp og ofan. 

„Ég held að megnið af liðinu sé með þetta bara í skottinu á bílnum.“ 

Hann nefnir að áður fyrr var ekki dælt á brúsa er búið var að boða til verkfalls, nú sé hins vegar tíðin önnur og margar bensínstöðvar eftirlitslausar. Því geti enginn stöðvað fólk í að dæla olíu á brúsa. 

„En ég held að fólk sé orðið meðvitað um að þú ferð ekki með bensínbrúsann niður í kompu og geymir hann þar,“ segir Eiríkur og bætir við að flestallir geymi brúsann í skotti bílsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert