„Bíllinn hefur ekki komið svona frá verksmiðjunni“

Metangastankur sprakk á Toyota-bifreið í Álfheimum í gær.
Metangastankur sprakk á Toyota-bifreið í Álfheimum í gær. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Við höfum ekki komið nálægt metanpartinum í þessum bíl eða neinum öðrum bíl,“ segir Páll Þorsteinsson, upplýsingafulltrúi Toyota á Íslandi, um bílinn sem sprakk við bensínstöð Olís í Álfheimum í gær.

Ástæður sprengingarinnar þykja enn óljósar, en uppruni hennar virðist tengjast bílnum sem verið var að dæla metani á frekar en metankerfi stöðvarinnar. Þá er ljóst að metanbúnaðurinn er ekki hluti af staðalbúnaði bílsins heldur hefur verið bætt við eftir á.

Breytingar á ábyrgð eigenda

Metankútur bifreiðarinnar, sem er af gerðinni Toyota, sprakk við Olísstöðina í gær um klukkn hálfþrjú og heyrðu margir íbúar í grennd sprenginguna vel. Þegar viðbragðsaðilar mættu á svæðið kom í ljós að sprengingin átti uppruna sinn í metankút bílsins.

Páll Þorsteinsson, upplýsingafulltrúi Toyota á Íslandi, segir að stundum séu breytingar gerðar á bílum til þess að hægt sé að dæla á þá metangasi en segir hann slíkar breytingar alfarið gerðar á ábyrgð eigenda. „Bíllinn hefur ekki komið svona frá verksmiðjunni.“ 

Hafa skoðað sinn búnað

Frosti Ólafsson, framkvæmdarstjóri Olís segir einnig í samtali við mbl.is að sprengingin virðist hafa átt sér stað í metankút bifreiðarinnar. „Það er enginn eldur sem kemur upp, hvorki í bifreiðinni né búnaði Olís. Auðvitað erum við búin að láta skoða búnaðinn hjá okkur en það er kannski ekki okkar að kveða úr algjörlega með orsakir.“ Rannsókn gæti tekið um mánuð.

„Þetta er bara í skoðun hjá tæknideild.“ segir Rafn Hilmar Guðmundsson, aðalvarðstjóri hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu. Hann segir að sú skoðun gæti tekið langan tíma, líklega um mánuð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert