Víðir Már Gíslason og sambýliskona hans Linda Carlsson eru innlyksa á bænum Barkarstöðum í Svartárdal ásamt fjórum börnum á grunnskólaaldri en parið rekur sauðfjárbú á bænum.
Krapaflóð í Svartá stoppaði á brúnni að bænum með þeim afleiðingum að áin fann sér farveg vestan við brúna, yfir veginn að bænum.
„Ég heyrði bara svakalegar drunur á milli tíu og ellefu í gærkvöld. Ég fór og kíkti út en þá var þetta bara komið upp um allt hérna. Við erum bara föst hérna heima,“ segir Víðir í samtali við mbl.is.
Víðir segir Vegagerðina vera að skoða hvað hægt sé að gera en hann segir brúna ónýta og ána hafa tekið sundur veginn vestan við brúna.
„Ég veit ekki alveg hvernig ég á að afla mér vista ef það lengist mikið í þessu ástandi en við eigum nóg fram yfir helgi að minnsta kosti,“ segir hann.
Það er engin hjáleið að sögn Víðis því vegurinn liggur allur austan megin í Svartárdal og áin er alltaf á milli.
„Svo er brú yfir til mín og að tveimur öðrum bæjum.“
Hefur eitthvað svona gerst áður?
„Nei ekki svona. Við höfum búið hérna í rúm 13 ár og höfum fengið krapaflóð hérna niður ána áður en ekkert í líkingu við þetta. Eldri menn hafa sagt mér að þeir muni ekki eftir svona svakalegu krapaflóði.“
Víðir er skólabílstjóri í Húnabyggð svo hann kemst ekki til vinnu á meðan ástandið varir en Linda er heimavinnandi. Þá komast krakkarnir ekki í skóla en þau eru á aldrinum 7-15 ára.
„Ég verð auðvitað fyrir vinnutapi sem ég á von á að ég þurfi bara að taka á mig og það var árshátíðarvika í skólanum og átti að vera árshátíð á fimmtudagskvöldið.
Það er leiðinlegt ef þau missa af því öllu saman. Ef þetta ástand dregst á langinn þurfum við eitthvað að ræða við skólastjórann um framhaldið.“
Birgir Þór Þorbjörnsson, yfirverkstjóri Vegagerðarinnar á Hvammstanga, segir að verið sé að meta stöðuna og kanna hvernig hægt verði að koma fólkinu á bænum yfir ána.
„Það er búið að kanna með vöð hér yfir ána en engin þeirra eru trygg og það eru engar slóðir þarna sem hægt er að gera færar. “
„Við ætlum að byrja á því að rífa brúna til að freista þess að losa um þetta og koma ánni í réttan farveg,“ segir Birgir.