Ekkert verið rætt um löggjöf tengda verkfalli

Jón Gunnarsson, dómsmálaráðherra.
Jón Gunnarsson, dómsmálaráðherra. mbl.is/Hákon

Jón Gunnarsson, dómsmálaráðherra, segir að ekki sé búið að boða til fundar í ríkisstjórninni til að ræða þá stöðu sem upp er komin á vinnumarkaði. Yfirvofandi eldsneytisskortur sé bagalegur en ekki hafi verið rætt um að setja lög á verkfall Eflingarfólks eða önnur viðbrögð af hendi ríkisstjórnarinnar. 

Hann segir það vera mikil vonbrigði að þessi staða sé komin upp í samfélaginu. Menn hafi glaðst yfir samningum sem gerðir voru við verkalýðsfélögin utan Eflingar á sínum tíma. „En að sama skapi er staðan núna vonbrigði og menn verða bara að vonast til þess að deilendur leysi sín mál,“ segir Jón.

Engin fundur boðaður enn

Nú er kjördæmavika og ráðherrar um öll landshorn að kynna sín málefni. Segir Jón að á þessari stundu hafi ekki verið boðað til fundar til þess að ræða vinnumarkaðsmál en hann á jafnvel von á því að fundað verði í lok viku þó ekkert sé í hendi með það enn.

„Við erum í stöðu sem við höfum ekki séð í mörg ár og mér finnst mjög slæmt að við séum í þeirri stöðu að allt sé í hnút á sama tíma og við þurfum á samstöðu að halda til að byggja stöðugleika til að ná niður þeim verðbólgudraug sem vakir yfir okkur á þessari stundu.“

Hefur ekki áhyggjur af almannavörnum 

Hann segist ekki hafa áhyggjur af því að löggæsla og annað tengt almannavörnum muni verða fyrir áhrifum af verkfallinu.

Hefur það verið rætt um að setja löggjöf um skýrleika á málum í sambandi við kjörskrá verkalýðsfólks eða hvort lög verði sett á verkfallið? 

„Nei það hefur ekkert slíkt verið rætt og ég tel að við séum ekki komin að þeim tímapunkti,“ segir Jón.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert