Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu lagði hald á mikið magn fíkniefna við húsleitir í umdæminu í síðustu viku, en þar var um að ræða um 7 kg af amfetamíni og um 40 kg af marijúana, auk annarra fíkniefna sem og frammistöðubætandi efna.
Fram kemur í tilkynningu frá lögreglunni að fimm hafi verið handteknir í þessum aðgerðum gegn skipulagðri brotastarfsemi og fjórir þeirra voru síðan í Héraðsdómi Reykjavíkur úrskurðaðir í gæsluvarðhald til 16. febrúar í þágu rannsóknarinnar, sem hefur staðið yfir undanfarnar vikur.
Hinir handteknu eru grunaðir um að hafa staðið að framleiðslu fíkniefna, sem og sölu og dreifingu þeirra.