Flugið stöðvast strax í næstu viku

Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair.
Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair. mbl.is/Árni Sæberg

Viðbúið er að allt flug hjá Icelandair raskist þegar um helgina og stöðvist um miðja næstu viku ef verkfall Eflingarbílstjóra í eldsneytisflutningum dregst á langinn. Það á jafnt við um millilandaflug og innanlandsflugið.

„Það er svo margt í þessari keðju okkar og inn á Keflavíkurflugvöll, sem þarf til þess að halda leiðakerfinu gangandi, sem er háð eldsneytisflutningum, að ég er hræddur um að það verði strax einhverjar truflanir um helgina, ekki síðar en á sunnudag,“ segir Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair, í samtali við mbl.is um mögulegar afleiðingar verkfallsins ef af verður. „En ég trúi því ekki að þannig verði það,“ bætir hann við.

„En fyrir miðja næstu viku verður þetta að óbreyttu orðið mjög erfitt og hugsanlega bara stopp.“

Löng og viðkvæm keðja

Bogi segir að þetta snúist ekki um flugvélaeldsneytið, heldur aðra þætti, svo sem flutninga á farþegum og starfsfólki til og frá vellinum, vistir, aðföng og margs konar tæki og tól. Allir þeir hlekkir þurfi að halda svo að keðjan haldi, en þeir muni ekki halda nema í nokkra daga.

„Mjög fljótlega þá verður flugið ekki rekstrarhæft, við getum ekki veitt þá þjónustu sem við viljum og þurfum að veita og þá þarf að stöðva kerfið,“ segir Bogi.

Bogi segir að feikilegt tjón muni hljótast af. „Ekki aðeins fyrir okkur, heldur ferðaþjónustuna og íslenskt hagkerfið allt. Það munu gríðarlegir fjármunir fara í súginn og orðsporið líka.“

Fleira í húfi en ferðaþjónustan

Hann minnir á að nú sé sölutímabilið fyrir háannatímann í gangi og þetta sé ekki til þess að hjálpa ferðaþjónustunni eða þjóðarbúinu, nú loksins þegar ferðaþjónustan sé að ná vopnum sínum eftir heimsfaraldurinn.

„Það er grafalvarlegt mál ef flugið stöðvast og snýr ekki aðeins að ferðaþjónustunni. Um leið hætta fragtflutningar með alls konar vörur til og frá landinu og mjög margt í samgöngukeðju okkar Íslendinga, sem er að fara að hökta allverulega."

Bogi segir að truflun á fragtflugi komi sérstaklega niður á útflutningi á viðkvæmum sjávarafurðum, svo tjónið í gjaldeyrisöflun þjóðarbúsins geti einnig komið hratt fram í fleiri grunnstoðum hagkerfisins en ferðaþjónustu.

„En eins og ég segi, þá trúi ég því ekki að til þess komi, að verkfall dragist svo á langinn eða verði látið viðgangast svo lengi að það sé allt í hættu.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert