„Nú verður reynt, á næstu dögum, til þrautar að ná samningum í þessari mjög svo þungu deilu,“ segir Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra um skipun ríkissáttasemjara og kjaradeilu Eflingar og Samtaka atvinnulífsins.
Ástráður Haraldsson héraðsdómari hefur verið settur í embætti ríkissáttasemjara, eftir að Aðalsteinn Leifsson sagði sig frá embættinu.
Olíubílstjórar innan Eflingar leggja niður störf á morgun, í ótilgreindan tíma. Spurð hvort ríkisstjórnin grípi í taumana ef olíuskorts fer að gæta segir Katrín:
„Við fylgjumst grannt með út frá sjónarhóli almannaöryggis og þjóðaröryggis. Ef við metum einhverja ástæðu til verður ríkisstjórnin að sjálfsögðu kölluð saman.“
Undanþágunefnd Eflingar hafa borist erindi, þar á meðal frá lögreglu, sjúkraflutningamönnum og Landspítala. Katrín segist treysta því að undanþágunefndin taki tillit til sjónarmiða að baki slíkra undanþágubeiðna.
„Við eigum ekki von á öðru en að hún geri það í sínum störfum,“ segir Katrín.
Nefndin starfar undir Eflingu og er formaður hennar Sólveig Anna Jónsdóttir en nefndarmenn eru skipaðir meðlimum samninganefndar Eflingar.
Katrín segir aðspurð að úrskurður Landsréttar um miðlunartillögu ríkissáttasemjara veki spurningar um lagaumhverfið.
„Eftir að hafa rýnt í þennan úrskurð kemur fram að ríkissáttasemjara sé heimilt að leggja fram miðlunartillögu. Eins og ég taldi nokkuð skýrt,“ segir Katrín.
Þó sé ekki skýrt hvernig megi framkvæma atkvæðagreiðslu.
„Ég held það þurfi að rýna það vandlega og eiga samráð um það. Ég held að þegar þessi ákvæði hafi verið sett inn á sínum tíma, í umræðum sem urðu á þingi 1996, þá hafi menn ekki endilega haft í huga þessi lögskýringargögn frá árinu 1978.“
Kjördæmadagar standa nú yfir og eru formenn flokkanna á ferð um landið. Katrín segir að þrátt fyrir það sitji ráðherrar á fundum, fari yfir stöðuna og skoði við hverju megi búast.