Gæsluvarðhald yfir Páli Jónssyni timburinnflytjanda, eins sakborninganna í stóra kókaínmálinu, var í gær framlengt um tvær vikur, eða til 24. febrúar. Saksóknari fór fram á fjórar vikur en dómari féllst ekki á þá beiðni.
Þetta staðfestir Unnsteinn Örn Elvarsson, verjandi Páls.
Fjórir menn eru taldir hafa reynt að smygla inn tæplega 100 kg af kókaíni til landsins í timbursendingu á síðasta ári. Þeir voru handteknir í byrjun ágúst.
Aðalmeðferð málsins er hafin en fresta þurfti framhaldi hennar í ljósi þess að erfiðlega hefur gengið að fá vitni frá Hollandi.
Ekki liggur fyrir hvenær aðalmeðferð hefst að nýju.