Hafna þremur undanþágubeiðnum

Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar.
Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar. mbl.is/Hákon Pálsson

Undanþágunefnd Eflingar hefur samþykkt ótímabundnar undanþágur til allra sem sóttu um undanþágur vegna almannaöryggis.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá verkalýðsfélaginu.

„Þeirra á meðal eru allir helstu viðbragðsaðilar í neyðarþjónustu, sem og þær stofnanir sem gegna lykilhlutverki í samgöngu- og upplýsingainnviðum,“ segir í tilkynningunni.

Til dæmis eru upp talin ríkislögreglustjóri, slökkvilið höfuðborgarsvæðisins, Rauði krossinn, Strætó, ríkisútvarpið og vetrarþjónusta Vegagerðarinnar.

„Samtals voru samþykktar um 70 undanþágubeiðnir. Einungis þremur var hafnað og í örfáum tilvikum var nánari rökstuðnings óskað eða aðeins orðið við beiðni að hluta.“

Kemur aftur saman á morgun

Tekið er fram að nefndin eigi fund að nýju á morgun, þar sem enn eigi eftir að fara í gegnum margar umsóknir sem liggi fyrir, að mestu frá smærri aðilum.

„Nefndin hefur að auki átt í samskiptum við fleiri aðila, svo sem Landspítalann, sem vinna að undirbúningi undanþágubeiðna sem skilað verður inn á næstu dögum.

Undanþágunefnd þakkar viðbragðsaðilum fyrir góð samskipti við afgreiðslu undanþágubeiðna.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert